Eyjamenn þjást þessi misserin af illvígri og tiltölulega skæðri upplýsingaþurrð. Þannig er hvíslað á milli manna að vísvitandi sé haldið frá Eyjamanninum ýmsum upplýsingum sem nauðsynlegar eru fyrir Eyjamanninn til að ganga beinn í baki um bæinn vitandi það sem hann ætti að vita.
Minnisvarði um Ólaf og Pál
Vandræðagangur bæjarfulltrúa í minnisvarðamálinu stóra hefur leitt yfir Eyjamanninn slíka upplýsingaþurrð að það jafnast á við móðurharðindin miklu.
Minnisverkið, sem er líklegast frekar minnisverk um Ólaf Elíasson og Pál Magnússon frekar en um eldgosið, verður frumsýnt aðeins einu sinni. Kom það skýrt fram á bæjarfundi fyrir nokkru. Þannig verður verkið ekki kynnt Eyjamanninum heldur eingöngu frumsýnt, og það einu sinni. En nú er komið í ljós að verkið verði frumsýnt í áföngum sem gæti hugsanlega dregið eitthvað úr upplýsingaþorsta Eyjamannsins. Á næsta ári er áformað að frumsýna fyrsta áfanga minnisvarðans, á 52 ára afmæli gossins.
Hvíslað er á milli manna í helstu skuggasundum bæjarins að sú fullyrðing bæjarfulltrúa að verkið hafi engin áhrif á ásýnd Eldfells og á nærliggjandi svæði sé upplýsingaóreiða í hæstu hæðum. Þannig er hvíslað að göngustígar verksins hlekkist um ósnortið hraun og upp allt eldfellið í bröttustu hlíðum þess. Sá sem gengur um stíginn geti þannig notið nálægðar við ruslahaugana meðan hann gengur um nýjan stíg sem liggur í ósnortnu hrauninu.
Hvíslað er frá mörgum áttum að um sé að ræða meiriháttar verklega framkvæmd sem breyti ásýnd Eldfellsins og gæti farið í gegnum allt skipulagsferlið án nokkurra upplýsinga til Eyjamannsins.
Upplýsingabrunnur HS Veitna er skrælþurr
HS Veitur, sem hafa einkarétt á veitustarfsemi í Vestmannaeyjum, birta ekki fjárhagslegar upplýsingar um veitustarfsemina. Engin opinber stofnun fær uppgjörin, ekki Eyjamaðurinn og ekki bæjarfulltrúarnir okkar. Enginn fylgist með, ekki er einu sinni vitað hvort fjárhagsuppgjör einstakra veitna séu endurskoðuð. Gjaldskráin er reiknuð út frá rekstrarkostnaði og ávöxtunarkröfu fastafjármuna.
Á upplýsingaþurrðarfundi HS Veitna fyrir stuttu birtist þó ein áhugaverð upplýsing, eða frekar staðfesting, þó að feykilega óljós væri. Fjármálasvið HS veitna framkvæmdir endurmat á tækjum og tólum sem myndar hagnað. Þessi hagnaður lækkar þó ekki gjaldskrá til notenda. En endurmatið leiðir til hækkun gjaldskrár vegna ávöxtunarkröfu sem HS Veitur nýta sér. Öllum ætti að vera ljóst að þetta er óeðlilegt, að hægt sé að kaupa tæki á 100 krónur og rukka fyrsta árið 7 krónur í gjald, endurmeta það stuttu síðar í 200 krónur og rukka þá 14 krónur í gjald þó að enginn aur hafi verið lagðir út af hendi veitunnar.
Nú er hætt við að Eyjamaðurinn, sem þjáist af illvígri upplýsingaþurrð, sé farinn að hringsnúast eilítið í upplýsingaóreiðuvefnum sem hefur verið spunninn.
Skoðanakönnunin mikla á næsta ári
H-listinn boðaði íbúakosningu fyrir stuttu sem andsvar við því að vera mótfallin því að fyrrnefndur minnisvarði um Ólaf og Pál færi í kosningu meðal íbúa. Kosningin er þó eingöngu til að kanna hug, en ekki til að taka ákvörðun.
Það sem spurt verður á næsta ári samhliða alþingiskosningunum er hvort fara eigi með gröfur og vörubíla á hraunið, austan miðbæjarins, og moka þar burt ótilgreindu magni af hrauni, setja það á ótilgreindan stað, til að byggja ótilgreint magn af fasteignum, og greiða jafnframt ótilgreint magn af peningum fyrir það. En rúsínan í pylsuendanum er að það er einnig algerlega ótilgreint hvernig frágangurinn verður og hversu langt þarf að ganga í greftinum til að ryðja fyrir svæði fyrir hinn nýja miðbæ.
Verkefnið mun eflaust kosta milljarða og gæti því kostar hundruð þúsunda á hvern byggðan fermetra sem myndast við framkvæmdina. En bæjarstjórn áformar ekki að kanna kostnaðinn fyrir stóru skoðanakönnunina á næsta ári.
Þessi upplýsingaleynd gæti reynst okkur Eyjamönnum, sem þegar kljást af heiftarlegri upplýsingaþurrð, tiltölulega skeinuhætt og gæti í framhaldinu lagt af byggð í Heimaey … eða svo er a.m.k. hvíslað.
https://eyjar.net/minnisvardinn-a-eldfelli-mikid-mannvirki/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst