Senn líður að hinni einu sönnu Þjóðhátíð í Eyjum. Þangað hafa allar aðrar útihátíðir sótt sínar fyrirmyndir, með misjöfnum árangri þó. Á árunum milli 1980 og1990 myndaði Páll Steingrímsson þjóðhátíðir frá ýmsum sjónarhornum. Íþróttafélögin Þór og Týr kostuðu þessa kvikmyndagerð á sínum tíma með það í huga að hún yrði heimild um Þjóðhátíð. Myndin byrjar þar sem þjóðhátíðarundirbúningur Eyjamanna hefst, þegar bæjarbragurinn breytist, bátar koma til hafnar, fiskvinnslufólk keppist við að klára að vinna fiskinn og spennan í bænum eykst smám saman. Síðan er haldið í Dalinn með tjald og tjaldbúnað og mannlífið í Dalnum sýnt í sinni fjölbreyttu mynd. Í myndinni má sjá mörg þekkt andlit, sum gengin til feðra sinna, önnur enn á meðal okkar. Myndin er frábær skemmtun, þeim sem unna Þjóðhátíð í Eyjum.