Núna í desember heimsótti fulltrúi Hjálparstarfs aðventista – ADRA bæjarbúa til að taka við framlögum til þróunar- og líknarstarfs líkt og undanfarin ár. Söfnunarféð í þetta sinn rennur til að sporna gegn mansali í Kambódíu. Margir landsmenn muna eftir heimildarmyndinni „Börn til sölu“ sem var gerð af starfsfólki RÚV (Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur og Guðmundi Bergkvist Jónssyni) í samstarfi við starfsfólk ADRA á Íslandi og í Noregi og sem var sýnd í sjónvarpinu fyrir einum tveim árum. Sú mynd lýsir einmitt því verkefni sem fjármagnað er með söfnuninni í ár.