Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja í byrjun vikunnar var tekin fyrir umsókn vegna áhrifa framtíðareldsneytis á nærumhverfið.
Jón Haralsson fyrir hönd Olíudreifingar ehf. sendi ráðinu erindi til að vekja athygli á nauðsynlegum ráðstöfunum varðandi geymslupláss framtíðareldsneytis. Með erindinu vill Olíudreifing vekja athygli bæjaryfirvalda á mikilvægi þess að tekið sé tillit til þeirra áhrifa sem framtíðareldsneyti mun hafa á nærumhverfi birgðastöðvar félagsins.
Félagið telur að á næstu árum verði þörf á að breyta einum tanki við birgðarstöð félagsins í tank fyrir framtíðareldsneyti og leggur til að gert verði ráð fyrir að birgðartankur á norðurhluta lóðar muni þjóna því hlutverki, sbr. meðfylgjandi uppdrátt. Þar sem aukin sprengjuhætta er af framtíðareldsneyti samanborið við hefðbundið jarðefnaeldsneyti er þörf á stærra helgunarsvæði, segir í erindinu.
Í afgreiðslu ráðsins er bréfritara þakkað fyrir erindið og lýsir ráðið sig reiðubúið til frekara samtals.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst