Bæjarráð fundaði í vikunni þar sem einungis eitt mál var á dagskrá. Á fundinn voru jafnframt boðaðir bæjarfulltrúar, fulltrúar í fræðsluráði, framkvæmdastjórar sviðanna þriggja, leikskólastjóri Kirkjugerðs og fræðslufulltrúi.
Bæjarráð ræddi húsnæði Leikskólans Kirkjugerðis. Ljóst er að skólinn þarfnast töluverðs viðhalds. Verkfræðistofan Mannvit var fengin til þess að taka húsnæðið út og hefur hann skilað drögum að viðhaldsáætlun. Vestmannaeyjabær er þegar farið að vinna í húsnæðinu eftir tillögum og áætlun fagaðilans. Þunginn í framkvæmdunum verður í sumar þegar leikskólinn verður lokaður vegna sumarleyfa, en framkvæmdum verður skipt á tvö ár.
Í niðurstöðu um málið þakkar bæjarráð upplýsingarnar og yfirferð framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs á áætluðum kostnaði vegna framkvæmdanna. Jafnframt felur bæjarráð framkvæmdastjóra að útbúa endanlega kostnaðaráætlun og áfangaskiptingu og leggja fyrir bæjarráð. Fyrsti hluti framkvæmdanna rúmast undir fjárhagsáætlun þessa árs.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst