Fram kom í máli Jóns að erlendu fjárfestarnir eru einkanlega fyrirtæki í Kína og Japan sem sjá mikla möguleika í fríverslunarsamningum Íslands við Evrópu og Norður Ameríku. Um er að ræða 270 þúsund tonna álver sem er liðlega helmingi stærra en álverið í Hafnarfirði en reiknað er með að byggja það í áföngum. Fari allt að óskum geta byggingaframkvæmdir verið komnar af stað 2010 eða jafnvel fyrr og eftir það yrði 100 nýjum störfum bætt við á ári, í heildina alls um þúsund störf. Reiknað er með að hvert nýtt starf í álverinu og hinum svokölluðu álgörðum kalli á 1,5 starf í þjónustu.
Með álgörðum er ætlunin að ráðast í fullvinnslu áls sem lítill áhugi hefur verið á hjá núverandi álfyrirtækjum hér á landi þar sem þau sjá sambærilegum fyrirtækjum í eigin löndum fyrir hráefni og hafa sum selt alla framleiðslu sína úr landi langt fram í tímann.
Aðspurður kvaðst Jón afar bjartsýnn á að af framkvæmdum geti orðið svo fremi að framboð væri á orkunni en verkið mætti ekki dragast um mjög mörg ár þar sem þá gætu núverandi fyrirætlanir verið í uppnámi. Jón sagðist ekki geta upplýst nöfn fjárfestana sem við sögu koma, hvorki þá innlendu né erlendu utan það að í Kína er stórfyrirtækið CITIC meðal fjárfesta en það rekur tugi álvera í heimalandi sínu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst