�?að var í ýmsu að snúast hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í síðastliðinni viku. Tilkynnt var um 15 þjófnaði til lögreglu. Var þar mest um að ræða innbrot og þjófnaði í fyrirtæki og heimahús.
Einnig var stolið úr verslun, farsíma úr tösku sem var í farangursgeymslu Herjólfs og einu reiðhjóli er var fyrir utan íþróttamiðstöðina. Samhliða innbrotunum var um að ræða skemmdarverk. Flest þessara innbrota og þjófnaða teljast upplýst.
Tilkynnt var um tvö minniháttar umferðaróhöpp á tímabilinu. Einn ökumaður var stöðvaður fyrir að aka bifhjóli án tilskilinna réttinda og þá var einn ökumaður stöðvaður fyrir of hraðan akstur um götur bæjarins.
Mikill viðbúnaður var hjá lögreglu, sem og öðrum viðbragðsaðilum er tilkynning barst um einshreyfils flugvél með vélarbilun á sunnudag. Flugmaður flugvélarinnar hugðist nauðlenda í Vestmannaeyjum en á þessum tíma voru flugskilyrði slæm vegna veðurs. Lendingin gekk að óskum og gengu áhafnarmeðlimirnir tveir heilir frá borði, segir í dagbók lögreglunnar.