Fyrsta skref afléttingar hefur þegar verið tekið með tilslökunum á samkomutakmörkunum og í skólastarfi sem tóku gildi 15. apríl síðastliðinn. Þá voru fjöldatakmörk aukin úr 10 í 20 manns, opnað var fyrir starfsemi sundlauga, líkamsræktarstöðva o.fl. með takmörkunum, hægt var að hefja sviðslistastarf á ný og sitthvað fleira.
Fyrri hluti maí: Fleiri megi koma saman
Áætlað er að snemma í maí verði unnt að stíga annað skref til rýmkunar á innanlandstakmörkunum þegar a.m.k. 35% landsmanna hafa fengið bólusetningu. Gert er ráð fyrir að hægt verði að hækka fjöldatakmarkanir og er miðað við mörk á bilinu 20 – 200 manns. Einnig er gert ráð fyrir rýmri undanþágu frá nálægðarreglu og fjöldatakmörkun fyrir tiltekna starfsemi.
Síðari hluti maí: Nálægðarmörk verða 1 metri og fjöldatakmörk rýmkuð enn frekar
Síðari hlutann í maí er gert ráð fyrir að am.k. 50% landsmanna hafi fengið bólusetningu og að bólusetning einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma sé komin vel á veg. Þá verði unnt að rýmka fjöldatakmarkanir til muna, sem verði einhvers staðar á bilinu 100 til 1.000 manns. Samhliða verði nálægðarmörk færð úr tveimur metrum í einn.
Síðari hluti júní: Öllum takmörkunum aflétt innanlands
Gert er ráð fyrir að aflétta megi öllum takmörkunum innanlands seinni hlutann í júní. Á þeim tíma er gert ráð fyrir að búið verði að bólusetja um 75% landsmanna að minnsta kosti einu sinni.
Forsendur afléttingaráætlunarinnar eru annars vegar fyrirliggjandi áætlanir um afhendingar bóluefna ásamt markmiðum samninga um afhendingu og hins vegar bólusetningaráætlun embættis landlæknis.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst