Krakkarnir í 10. bekk í GRV munu standa fyrir gangbrautarvörslu á nokkrum fjölförnum gangbrautum á morgnana í svartasta skammdeginu með það fyrir augum að auka öryggi yngri nemenda á leið sinni í skólann. Verkefnið mun standa yfir frá 3. desember til 1. mars. Lögreglan í Vestmannaeyjum mun að sjálfsögðu verða krökkunum innan handar við framkvæmdina.
Verkefnið er dyggilega stutt af Landsbankanum sem styrkir lokaferðasjóð 10. bekks GRV auk þess að færa nemendum í 1. – 7. bekk endurskinsmerki að gjöf og útvega vesti fyrir gangbrautarverðina. Gangbrautirnar sem þeir munu vakta eru fjórar; á Skólavegi, á Kirkjuvegi við Vallagötu, á gatnamótum Illugagötu og Kirkjuvegs og við Hraunbúðir.
“Frábært verkefni sem eflir samfélagsvitund og samkennd. Gefur nemendum tækifæri til að taka þátt í samfélagsmálum á ábyrgan hátt. ” segir Ásdís Tómasdóttir deildarstjóri unglingastigs GRV.
“Lögreglan hvetur ökumenn, sem og gangandi vegfarendur, til að gæta fyllsta öryggis í umferðinni. Sérstaklega á það við nú þegar svartasta skammdegið gengur yfir en þá eru börn á leið til og frá skóla. Sérstaklega á það við á morgnana. Lögreglan hvetur gangandi vegfarendur til að nota endurskinsmerki. Þá eru ökumenn hvattir til að gæta fyllstu athygli nærri skólum bæjarins sem og og annar staðar í umferðinni. “ segir Jóhannes Ólafsson yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum.
“Landsbankinn vill með þessu framlagi leggja sitt lóð á vogarskálarnar þegar kemur að öryggi barna og unglinga í umferðinni hér í Vestmannaeyjum. Við bindum miklar vonir við að vel takist til hjá þessum flottu krökkum í 10. bekk að gæta þeirra sem yngri eru. Frábært framtak hjá þeim, GRV og lögreglunni.” segir Jón Óskar Þórhallsson, útibússtjóri Landsbankans í Vestmannaeyjum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst