Bílaverkstæði Sigurjóns – alhliða þjónusta
„Ég stofnaði fyrirtækið 1. nóvember 1986, Bílaverkstæði Sigurjóns. Darri bróðir kom inn í það eftir eitt ár og Jón Steinar bróðir okkar eftir það og þá varð til Bílaverkstæðið Bragginn. Ekki man ég hvaða ár það var sem ég fór út úr því og keypti Smurstöð Skeljungs við Græðisbraut. Var þar með hefðbundið bílaverkstæði en Darri sneri sér að bílasprautun og réttingum og Jón Steinar fór í vörubílareksturinn,” segir Sigurjón Adólfsson, bifvélavirki sem í dag rekur verkstæði sitt að Flötum 20 og Garðavegi 15, húsi sem á sér langa sögu sem atvinnuhúsnæði. Þangað flutti hann á síðasta ári.
Eftir nokkur ár á Græðisbrautinni flutti Sigurjón sig aftur á Flatirnar árið 2000, í hús á sama hlaði og Bragginn var og er þar sem hann keypti húsið af Hirti Hermanns og Gísla Jónasar sem framleiddu þar trollkúlur. Það gerðu þeir í tvö eða þrjú ár og Fjölverk keypti Smurstöðina sem stóð þar sem Húsasmiðjan er í dag. Við erum með allar hefðbundnar bílaviðgerðir, smurstöð og dekkjaverkstæði. Stærri bíla þjónustum við á gamla staðnum og nóg að gera. Vörubílar og allir stærri bílar fara þar inn,” segir Sigurjón og kvartar ekki því nóg er að gera á öllum vígstöðvum.
„Við erum að meðaltali fjórir á gólfinu og ég hef oft verið spurður af hverju ég sé sjálfur á gólfinu. Það er einföld skýring á því. Þetta gengur ekki ef maður vinnur ekki við það sjálfur eins og verkstæðin hér í Eyjum sanna. Þar eru eigendur allir á gólfinu eins og Darri í Bragganum, Muggur á bílaverkstæði Muggs, Hörður og Matti á Bílaverkstæði Harðar og Matta og Óskar í Áhaldaleigunni. Það hafa menn reynt að reka svona verkstæði og verða aldrei skítugir undir nöglunum. Það hefur ekki gengið upp.“
Breytingar og tækniþróun
Bílaverkstæði Sigurjóns er mjög vel búið tækjum og uppfyllir allar kröfur dagsins í dag. „Við þjónustum flestöll bílaumboðin og komnir með tölvur fyrir alla þessa bíla. Þetta hefur mikið breyst frá því maður opnaði húddið á bílnum til að finna út hvað væri að. Í dag kemur fólk með bílinn og við stingum tölvunni í samband. Hún gefur vísbendingar og hjálpar mikið en segir ekki allt.”
Þau eru að nálgast 40 árin sem Sigurjón hefur staðið í þessum bransa og hann upplifað miklar breytingar og tækniþróun. „Þetta er mjög mikil breyting. Í dag er það smurþjónusta við bíla með hefðbundnar vélar. Í nýrri bílum er það mengunarkerfið sem kallar á mikla þjónustu og líka bremsur, fjaðrabúnaður, tímareimar og fleira. Þetta er uppistaðan hjá okkur í dag.”
Fylgjast vel með
Hvað með rafbílana? „Við höfum ekkert farið út í að þjónusta þá. Það er mikið sérverkefni sem við sendum beint í umboðin en við fylgjumst með þróuninni og ekki langt í að við förum að vinna við þá.
Þegar litið er yfir verkstæðið er ekki annað að sjá en að hér sé allt sem þarf, t.d. 9 lyftur, tölvur og viðeigandi tæki. „Við þrífum ekki bíla en alla aðra þjónustu er hægt að fá hjá okkur. Við erum með góða kúnna sem margir hafa verið hjá okkur í áratugi og þrír frá upphafi. Fyrstu kúnnarnir voru Haukur á Reykjum vörubílsstjóri, Friðbjörn Ólafur Valtýsson, þá með Straum og Hartmann tannlæknir.“
Sigurjón er ekki mikið í að selja bíla sjálfur en er í góðu sambandi við umboðin sem hann er að vinna fyrir. „Hekla kom hingað með bíla og gekk vel. Þurftu ekki að fara með marga bíla því þeir seldust flestir. Við sækjum líka námskeið hjá umboðunum til að fylgjast með því sem er að gerast. Það tryggir viðskiptavinum okkar bestu þjónustu,” sagði Sigurjón að lokum.
Myndir. Óskar Pétur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst