Um helgina bættist Íslandsmeistartitill í safn ÍBV, þegar 6. flokkur karla í handbolta tryggði sér titilinn norðan heiða.
Þetta hefur verið hreint ótrúlegur vetur hjá strákunum í 6.flokki. Í allan vetur hafa þeir æft stíft undir styrkri handleiðslu Arnórs Viðarssonar. Honum til halds og trausts hafa verið Kristján Kjartansson, Birkir Björnsson og að sjálfsögðu Pavel Miskevich sem hefur smitað unga markmenn af stemmnings-markvörslu. Arnór hefur reynst strákunum ofboðslega vel, það er ómetanlegt þegar svona karakterar eins og Arnór gefa af sér til ungra iðkenda. Drengirnir líta mikið upp til Arnórs, það sést best á æfingum þar sem þeir hanga á hverju orði sem hann segir.
Flokkurinn tók þátt í 5 mótum í Íslandsmóti og bikarkeppni. Á Íslandsmóti er leikið í deildakeppni, ÍBV lék í efstu deild allt tímabilið, unnu þrjú mót og lentu í öðru sæti á tveimur. Í bikarkeppni fóru þeir alla leið í úrslit en máttu þola súrt tap þar.
Síðasta mótið á tímabilinu var haldið á Akureyri um helgina. Á föstudegi var haldið norður. Ósköp löng rútuferð fyrir unga og spennta peyja. Allir komust þó heilir á leiðarenda og leikar hófust á laugardegi. Strákarnir léku fjóra leiki, unnu þrjá en töpuðu einum, stóðu uppi sem sigurvegarar á mótinu og heildarárangur þeirra tryggði þeim þar af leiðandi Íslandsmeistaratitilinn með nokkrum yfirburðum.
Óhætt að óska þessum efnilegum strákum og þjálfurum þeirra innilega til hamingju með árangurinn!
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst