Samfélagsinnviðir eru burðarás lífsgæða, velferðar og samkeppnishæfni Íslands, bæði fyrir almenning og atvinnulífið. Orka er þar á meðal hluti af lykilinnviðum íslensks samfélags og hana þarf að tryggja öllum heimilum og fyrirtækjum, um land allt. Það þarf bæði nóg af henni og stöðuga afhendingu. Til þess þarf að framleiða meiri orku og tryggja afhendingaröryggi, á landsvísu.
Stjórnvöld bera ábyrgð á því að skapa skilyrði fyrir græna iðnaðaruppbyggingu og orkuskipti – verkefni sem byggist á nægri orku og á öflugu flutningskerfi raforku. Það er því brýnt að hraða uppbyggingu flutningskerfis raforku til að tryggja afhendingaröryggi á landsvísu og auka samkeppnishæfni einstakra landshluta. Á yfirstandandi kjörtímabili var kyrrstaða rofin í uppbyggingu flutningskerfisins og er nú stærsta flutnings- og kerfisframkvæmdaátak sögunnar hafið. Þar á meðal lagning tveggja rafstrengja til Vestmannaeyja, uppbygging Suðurnesjalínu 2 og Holtavörðulínu 1-3. Ennfremur hefur fyrsta rammaáætlunin verið samþykkt í níu ár, regluverk verið einfaldað, aukinn hvati til notkunar varmadælna og fyrsta jarðhitaleitarátak aldarinnar sett af stað. Þá munu nýjar virkjanir, bæði í vatnsafli og vindorku taka til starfa á næstu árum. Þar má helst nefna Hvammsvirkjun og Búrfellslund
En það er ljóst að það skiptir máli hver stendur vaktina. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á áframhaldandi virkt samtal um framtíðaráform orkumála á Suðurlandi. Það samtal hefur verið tekið við Vestmannaeyjar á kjörtímabilinu og lá fyrir í september 2023 skýrsla um hvernig eigi að efla samfélagið í Vestmannaeyjum. Skýrslan bar yfirskriftina Græna Eyjan og þar eru vel kjarnaðar aðgerðir til að tryggja raforkuöryggi í Vestmannaeyjum. Staðan er einfaldlega sú að Sjálfstæðisflokkurinn gekk hreint til verks í þessum forgangsmálum Vestmannaeyinga.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið markvisst að því að efla orkuöflun í Vestmannaeyjum og tryggja framtíðarafhendingaröryggi. Með undirritun viljayfirlýsingar í febrúar á þessu ári var lögð áhersla á að flýta lagningu tveggja nýrra rafstrengja til Eyja, verkefnis sem mun styrkja raforkukerfið fyrir næstu 15 ár. Verkefnið er nú á áætlun og stefnt er að því að strengirnir verði lagðir sumarið 2025.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur því lagt grunn að nauðsynlegri uppbyggingu sem tryggir að bæjarfélagið geti haldið áfram að vaxa og dafna á sjálfbæran hátt.
Orkan er sannarlega nauðsynjavara í nútíma samfélag og eitt af áherslumálum okkar er að tryggja næga og stöðuga orku til heimila og fyrirtækja á samkeppnishæfu verði. Í Vestmannaeyjum þarf að auka aðgengi að orku á næstu árum til að halda í við þróun atvinnulífs og þarfa almennings. Það er því nauðsynlegt að halda áfram á þeirri vegferð sem nú hefur verið mörkuð um stóraukna orkuframleiðslu og stórbætingu flutningskerfisins.
Betur má þó ef duga skal en ljóst er að við þurfum að tvöfalda orkuframleiðslu hér á næstu árum til að halda í við þróun atvinnulífs og þarfa almennings. Þess vegna þarf að einfalda regluverkið enn frekar. Það gerum við til dæmis með því að allir geti virkjað og selt inn á kerfið og að svæði, líkt og Vestmannaeyjar, geti nýtt sínar auðlindir til þessa að búa til orku sjálfum sér og öðrum til heilla. Þá þarf að skoða álagningu flutningsgjalda sem skapa óneitanlega áskoranir á landsbyggðinni enda gjöldin ekki sambærileg um allt land.
Græn orka er lykillinn að auknum lífsgæðum og sjálfbærum efnahagsvexti í Vestmannaeyjum og á Suðurlandi. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að stórauka orkuöflun og tryggja næga orku til heimila og fyrirtækja á svæðinu. Íslensk græn orka er ekki aðeins hornsteinn efnahagslegra framfara heldur einnig lykilatriði í því að tryggja orkuöryggi og styrkja lífskjör til framtíðar. Með framsýnum aðgerðum á sviði orkumála sköpum við betra samfélag fyrir komandi kynslóðir.
Eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra og oddvita Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, og Gísla Stefánsson bæjarfulltrúa og frambjóðanda í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst