HS Veitur sjá íbúum og atvinnulífi í Vestmannaeyjum fyrir rafmagni, köldu vatni og heitu vatni, en fyrirtækið tók við þjónustunni árið 2002 þegar það sameinaðist Bæjarveitum Vestmannaeyja.
Þjónustan í Eyjum sker sig úr innan starfssvæðis HS Veitna þar sem rafmagn og kalt vatn er flutt sjóleiðina til eyjanna auk þess að ekki er heitt vatn í Vestmannaeyjum og því þarf að framleiða það á staðnum. Þetta gerir reksturinn flóknari og veldur miklum kostnaði.
Þar að auki hefur rekstrarumhverfi rafkyntra hitaveitna (fjarvarvarmaveitna) versnað til muna síðasta áratuginn og hafa þær allar verið að fást við taprekstur vegna síhækkandi raforkuverðs og flutningskostnaðar, auk langvarandi skerðinga á raforku sem veldur því að nota þarf olíu á meðan ekkert rafmagn er í boði.
Rekstur hitaveitunnar í Vestmannaeyjum hefur því staðið frammi fyrir miklum áskorunum síðustu ár. Haustið 2023 var ráðist í markvissar aðgerðir til að snúa við margra ára taprekstri í þeim tilgangi að tryggja áframhaldandi starfsemi hitaveitunnar. Þær aðgerðir fólust meðal annars í verðhækkun og hagræðingu í rekstri til að draga úr kostnaði við framleiðslu á heitu vatni. Að auki var stefnt að því að hætta notkun á olíu og náðist sá áfangi um síðustu áramót þegar samið var um forgangs raforku fyrir hitaveituna í Vestmannaeyjum. HS Veitur leituðu einnig til stjórnvalda varðandi leiðir til lækkunar á húshitunarkostnaði íbúa í Vestmannaeyjum. Stjórnvöld og Alþingi hafa brugðist vel við og hækkuðu niðurgreiðslur til íbúa umtalsvert og hitaveituskattur (umhverfis- og auðlindagjald) á notendur rafkyntra hitaveitna hefur verið felldur niður.
Þessar aðgerðir eru nú að skila tilætluðum árangri en það hefur þó verið á brattann að sækja. Raforku- og flutningskostnaður fyrir heitavatnsframleiðsluna hefur hækkað mikið frá haustinu 2023. Síðan þá hefur flutningskostnaður Landsnets hækkað um 39% og við það að fara úr skerðanlegri raforku í forgangsorku hækkaði raforkuverðið til hitaveitunnar um rúmlega 100%. Á móti kemur að notkun olíu ætti nú að heyra sögunni til. Þessar kostnaðarhækkanir vega þungt því flutnings- og raforkukostnaður nemur um helmingi af rekstrarkostnaði hitaveitunnar. Aðrir helstu kostnaðarliðir eru laun, afskriftir og vextir af lánum en verðbólga hefur verið mikil og vextir haldist háir á þessu tímabili. Allt þetta gerir reksturinn þungan.
Í grein sem birtist í Eyjarfréttum 3. júlí sl. var fjallað um að kostnaður við húshitun hafi hækkað langmest í Eyjum. Umfjöllunin byggir á tölum frá árinu 2022 og er það rétt að á því ári var fjórði hæsti kostnaður á landsvísu í Vestmannaeyjum. Síðan þá hafa hins vegar orðið jákvæðar breytingar og staðan orðin mun betri í samanburði við aðrar hitaveitur á landinu. Húshitunarkostnaður íbúa í Vestmannaeyjum er nú nálægt meðaltali á landsvísu líkt og sést í eftirfarandi samanburði á orkukostnaði heimila 2024 sem Byggðastofnun gaf út:
Þegar tölur Byggðastofnunar eru rýndar má sjá að bein rafhitun er talsvert dýrari en hitaveitan í Vestmannaeyjum auk þess sem fjölmargar hitaveitur víðsvegar um landið sem nota jarðhita eru með hærri kostnað en íbúar í Vestmannaeyjum þurfa að greiða. Tekið er tillit til mismunandi hitastigs á vatninu í tölum Byggðastofnunar. Skýrslu Byggðastofnunar má finna á netinu (orkukostnadur-heimila-arid-2024.pdf).
Í framangreindri grein í Eyjafréttum er því haldið fram að eftirfylgni hins opinbera með gjaldskrá hitaveitunnar sé ekki viðunandi. Þetta er alrangt því umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur virkt eftirlit með breytingum á gjaldskrám hitaveitna og staðfestir þær ekki nema fullnægjandi rök og gögn liggi fyrir og að undangenginni faglegri yfirferð og umsögn sérfræðinga Umhverfis- og orkustofnunar. Staðfesting ráðuneytisins á þeim aðgerðum sem hitaveitan hefur þurft að ráðast í endurspeglar hversu nauðsynlegar og vel rökstuddar þær aðgerðir hafa verið enda tilgangurinn sá að tryggja heimilum og fyrirtækjum í Vestmannaeyjum áfram aðgang að hitaveitu á eins hagkvæmu verði og raunhæft er miðað við aðstæður í Eyjum.
Sigrún Inga Ævarsdóttir, samskipta- og markaðsstjóri HS Veitna.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst