„Við Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri og Gísli Stefánsson bæjarfulltrúi, höfundar skýrslunnar ákváðum strax að fylgja ábendingum eftir þannig að við afhendingu lægju fyrir ákvarðanir stofnana sem um málin fjalla. Það hefur að stórum hluta tekist,“ sagði Árni Sigfússon formaður starfshóps um eflingu samfélagsins í Vestmannaeyjum sem skilaði af sér mánudaginn 9. október sl.
„Samtal okkar við forystumenn Landsnets, um lagningu tveggja rafstrengja þýðir að þeir eru komnir á framkvæmdaborðið. Það var alls ekki sjálfgefin lausn að hætta að vandræðast með bilaðan streng, heldur ákveða að leggja tvo nýja strengi 2025. Hið sama á við um nýja vatnsleiðslu til Eyja. Þar þarf að styðja HS veitur í að fá fram breytingar svo þau geti svarað fyrir þá fjárfestingu eigenda sinna að leggja í svo mikla fjárfestingu.
Vatn til Eyja er almannavarnarmál. Þess vegna þarf þingið að stíga inn í og tryggja að framkvæmdaaðilanum sé mögulegt að gera þetta. Eyjar eiga ekki að þurfa að greiða óeðlilega hátt gjald fyrir búsetu sína, rétt eins og varnir á snjóflóðasvæðum eru greidd úr sameiginlegum sjóðum. Þetta er mál sem þingmenn Suðurkjördæmis þurfa að berjast fyrir,“ sagði Árni.
Hann sagði víða verið að gera góða hluti í fullvinnslu sjávarafurða. „Hugsjónamaðurinn Hallgrímur Steinsson hjá Laxey, fjárfestar og samstarfsmenn eru verðlaunadæmi um allt þetta. Ekkert sveitarfélag hefur enn tekið af skarið með að lýsa yfir að það stefni að grænni framtíð sem samfélag. Það væri því sterk yfirlýsing.“
„Guðlaugur Þór skildi ekki fyrst hvers vegna hann sem umhverfisráðherra ætti að fjalla um jarðgöng til Eyja. Við bentum honum á þau sem lagnakjallara fyrir alla innviðina sem hluta umhverfis- og orkumála, sem yrði auðvelt að viðhalda og hann samþykkti.“
Á léttari nótunum
Árni segir ráðherra hafa mikinn áhuga á orkuframleiðslu og eigin orkulausnum í Eyjum. „Það eru ábendingar um það í skýrslunni. Í tilefni nýafstaðinnar Bjargveiðimannahátíðar langaði mig þó, Bjarnareyingnum, að stríða nágrönnum okkar og leggja til að vindmyllur verði settar upp í Elliðaey enda fátt þar um lunda. Írísi og Gísla þótti það grín alls ekki við hæfi, ekki mér heldur. Fyrir þessa húmorstilraun fékk ég þó birta mynd af Bjarnarey á forsíðu skýrslunnar. Forseti bæjarstjórnar, Palli Magg bróðir í Bjarnarey var ánægður með hana. Margt meira um þetta verkefni að segja síðar. En í alvöru, ég vona að efni skýrslunnar marki sterk og jákvæð spor framundan. Við vorum heppin að hafa Írisi og Gísla um borð og njóta ábendinga frá á fjórða tug sérfróðra,“ sagði Árni að endingu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst