Eyþór Viðarsson er rafvirki sem hefur starfað í faginu í yfir áratug. Eyþór starfaði í byggingariðnaðinum á sínum tíma þegar hann bjó á höfuðborgarsvæðinu, en í dag er hann sjálfstætt starfandi og aðstoðar fyrirtæki og fólk við stór og smá verkefni tengd rafmagni. Við fengum að heyra í Eyþóri og fá hans ráð og innsýn í byggingageirann.
Góður undirbúningur mikilvægur
Eyþór nefnir að í fyrsta lagi þegar að kemur að nýbyggingum sé mjög mikilvægt að undirbúa raflagnir vel. Hann segir það mjög algengt að fólk gleymi að undirbúa rafmagn fyrir framtíðarþarfir. „Fólk gleymir oft að gera ráð fyrir nægu rafmagni út úr húsi eins og til dæmis fyrir rafhleðslustöð. Einnig vill fólk oft seinna meira bæta við hlutum hjá sér eins og heitum potti, lýsingu á palli eða öðrum útitengdum lausnum, en gleymir að leggja til nægjanlegt rafmagn. Ég hef oft rekist á það að lagnaleið út úr húsi gleymist algjörlega og þá er aðeins meiri vinna að bæta því við eftir á,“ segir Eyþór. Hann segir að best sé að hlusta á rafvirkjann strax í upphafi, því þegar búið er að steypa eða loka öllum veggjum þá er erfiðara að fara breyta lagnaleiðunum.
Góð samskipti lykilatriði í byggingarferlinu
Annað sem Eyþór nefnir mikilvægt þegar að kemur að byggingarframkvæmdum er að passað sé upp á að samskipti milli allra fagaðila séu í lagi. „Það er lykilatriði að eigandi eða byggingarstjóri hafi góða yfirsýn yfir allt byggingarferlið og tryggi að allir faghópar tali saman og skilji hvert annað. Sérstaklega vegna þess að í dag er algengt að fólk í bransanum tali mismunandi tungumál. Ef samskiptin eru ekki í lagi getur myndast misskilningur sem hægir á ferlinu og getur hindrað að vinnan gangi jafn vel fyrir sig og hún ætti.“ Hvað er í uppáhaldi hjá Eyþóri þegar kemur að hans starfi? „Persónulega finnst mér skemmtilegra að vinna í smærri verkefnum heldur enn í stærri fyrir fólk sem glímir við vandamál tengd rafmagni heldur en í stórum verkefnum þar sem þarf að breyta miklu,“ segir Eyþór.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst