Lögð voru fram drög að minnisblaði um uppsögn á þjónustusamningi vegna gatnalýsingar í Vestmannaeyjum á fundi framkvæmda og hafnarráðs í vikunni. Þegar Hitaveita Suðurnesja og Bæjarveitur Vestmannaeyja sameinuðust árið 2002 var undirritað samkomulag þess efnis að gatnalýsing í Vestmannaeyjum yrði áfram í eigu sveitarfélagsins, en þjónusta á hendi Hitaveitu Suðurnesja (HS veitur). HS veitur annast almennt viðhald, utanumhald og móttöku tilkynninga, en viðbætur og endurnýjun er á hendi eiganda. Fara þarf yfir hvaða kostir eru hagstæðastir í stöðunni. Önnur sveitarfélög og Vegagerðin hafa farið í útboð á vinnu við viðhald og lagerhald, en umsýsla færst til sveitarfélaganna. Í minnisblaðinu er tillaga um að óskað verði eftir því við HS veitur, að yfirfærslan muni ekki eiga sér stað fyrr en um næstu áramót. Jafnframt er tillaga um að í fjárhagsáætlun ársins 2022 verði gert ráð fyrir fjármagni til að hefja vinnu við að færa stýringar í stjórnkassa.
Ráðið fól framkvæmdastjóra að leggja fram tillögu að fyrirkomulagi viðhalds og eftirlits. Ráðið samþykkir að framkvæmdastjóri leggi fram tillögu um uppbyggingu gatnalýsingakerfis inn í vinnu við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2022.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst