Þegar ég var 10 ára og öll fjölskyldan við matarborðið, þá var innri spenna í okkur systkinum. Spennan snerist um það hver yrði beðinn að vaska upp. Þegar mamma spurði hvort einhver myndi bjóða sig fram í uppvaskið, þá þögnuðu systurnar á núll einni. Ég horfði á þær stara í borðið og þögnin var æpandi, og síðan á mömmu sem sá engar líkur á framboði systranna. Ég rétti upp hendina og sagðist glaður vaska upp, þó það tæki 45 mínútur fyrir mig að leysa verkefnið. Venjulega tók það mömmu eða aðra í fjölskyldunni 10 mínútur að vaska upp, en ég var bara ekkert svo góður í því þar sem ég var ekki í mikilli æfingu í uppvaski. Loksins þarf kóngabarnið eitthvað að gera á heimilinu, heyrðist frá systrunum léttar í bragði eftir spennufallið. Þið ættuð að skammast ykkar sagði mamma við stelpurnar – hann bauð sig þó fram þó hann sé ekki besti uppvaskarinn.
Nú áratugum síðar bíð ég mig fram í uppvaskið fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Vestmannaeyjum. Ég átta mig á því að það eru til margir góðir uppvaskarar, en fáir hafa áhuga á uppvaski nú til dags. Kannski eru ætandi efni í sápunum sem fælir fólk frá þessu ?
Eyþór Harðarson
Býð mig fram í 1.sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum í komandi prófkjöri 26.mars.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst