Á fundi framkvæmda og hafnarráðs í vikunni var til umræðu minnisblað frá Eflu verkfræðistofu vegna veðurathugana í tengslum við hugsanlegan stórskipakant við Eiði. Fram kemur í minnisblaðinu að töluveða rannsóknir þurfa að eiga sér stað áður en niðurstaða liggur fyrir.
Siglingastofnun, nú Vegagerðin, hóf vatnslíkanaskoðun á hafnarmannvirkjum norðan við Eiðið árið 1990. Á árunum 2009 og 2010 voru keyrð tölvulíkön fyrir töluvert margar tillögur. Þrjár þeirra voru skoðaðar nánar og liggur kostnaður við þær m.v. verðlag þess tíma í kringum 4-6 milljarða króna. Í dag væru þessar framkvæmdir 35-40% dýrari eða á um 5,5-8 milljarða króna (án virðisaukaskatts).
Reiknað með frátöfum vegna viðlegu á bilinu 2-9 daga á ári
Öldufarslíkan Vegagerðarinnar hefur reynst sýna góða samsvörun við raunverulegar aðstæður. Í tillögum Vegagerðarinnar er reiknað með frátöfum vegna viðlegu á bilinu 2-9 dagar á ári og að löndunarmörk liggi á bilinu 2-18 dagar á ári. Stór skip, hlaðin gámaskip (allt að 24 m) og há farþegaskip geta tekið á sig mikinn vind. Líkön Vegagerðarinnar miðast við öldufarsathuganir og hreyfingar skips af þeirra völdum. Þess vegna er þakklátt og mikilvægt að hafa sem allra bestar upplýsingar um vindafar á líklegum framkvæmdasvæðum, sem nú liggja úti á sjó. Til þess þarf sérhæfðan búnað.
Þarf að reysa 50 metra hátt mastur á svæðinu
Leitað var til ráðgjafarfyrirtækisins Belgings, sem sérhæfir sig í athugunum og úrvinnslu veðurfarslegra gagna. Þeir leggja til að á Eiðinu verði reist 50 m hátt mælimastur og að í því verði staðsettar veðurathugunarstöðvar í mismunandi hæð yfir landi. Þeir leggja einnig til að sitthvoru megin við Eiðið, annars vegar í Kleif og hins vegar í vesturhlíð Heimakletts verði settir upp lidarar í 50 m hæð. Þannig næst að mæla og kvarða gögn m.v. staðsetningu mögulegra mannvirkja.
Vindafar á svæðinu flókið
Mælibúnaðinn þyrfti að reka samfleytt í 2 ár. Leiga á búnaðinum, allt efni, vinna á staðnum og úrvinnsla er talin kosta kr. 59,5 milljónir króna m.v. að reist yrði sjálfberandi mastur. M.v. að notað yrði stagað mastur, má líklega lækka kostnaðinn niður í um 51,5 milljónir króna (með virðisaukaskatti). Sé horft til kostnaðar við aðgerðir og undirbúning sem tengist gagnaöflun og skoðun vindafars upp á 50-60 milljónir króna, þá vegur sá kostnaður ekki þungt í samanburði við áætlaðan framkvæmdakostnað. Talið er líklegt að frátafir muni reiknast meiri en Vegagerðin nefnir í sínum athugunum eftir skoðun niðurstaða varðandi vindafarið á líklegum framkvæmdastað. Það er margt sem bendir til þess að vindafar á þessu svæði sé flókið.
Telur við hæfi að skoða Skansfjöru gegnt Klettsvík
Þó það sé ekki beint hluti af þessu verkefni, þá telur EFLA við hæfi að skoða aðra valkosti í þessu sambandi. Velta þarf við öllum steinum í svo stóru máli. Á fundum með verkkaupa voru ýmsar hugmyndir ræddar m.a. kom fram sá valkostur að útfæra megi aðstöðu fyrir skemmtiferðaskip við sandtökusvæði við jaðar hraunsins gegnt Klettsvík. Þá gæti þurft minniháttar brimvarnir sunnan megin innsiglingar út frá jaðri hraunsins. Svo bíður Klettsvíkin upp á snúning stórra skipa sem draga (bakka) megi að viðlegustað. Það mundi þýða fjárfestingu í öflugri dráttarbátaútgerð auk þessa litla garðs svið nýja hraunið. Það er samt nokkuð víst að frátafir muni ekki hverfa við það. Slíkt fyrirkomulag kallar samt á framkvæmdir innan hafnarinnar sem ekki verður fjallað um hér.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst