„Vegagerðin hefur ekki rift samningnum við skipasmíðastöðina Crist S.A.“ sagði G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi hjá Vegagerðinni í samtali við Eyjafréttir. Eyjar.net sögðu frá því núna fyrr í dag að Vegagerðin hefði rift samningnum við stöðina.
„Vegagerðin hefur hins vegar innkallað bankaábyrgðir sem annars myndu renna út í dag og höfðu ekki verið framlengdar. Í dag kemur í ljós hvort skipasmíðastöðin framlengir ábyrgðirnar en viðræður við þá eru í gangi og ekki hægt að tjá sig um gang mála í þeim. Vegagerðin átti engan annan kost en innköllun ábyrgða til að tryggja stöðu sína“, sagði G. Pétur í samtali við Eyjafréttir.


















