Ísfisktogararnir Jóhanna Gísladóttir GK, Vestmannaey VE og Bergey VE hafa allir landað góðum afla að undanförnu. Jóhanna Gísladóttir landaði sl. fimmtudag í Grundarfirði og aftur á mánudag í Grindavík en Vestmannaeyjaskipin lönduðu í Neskaupstað á mánudag .
Rætt er við skipstjórana á vefsíðu Síldarvinnslunnar um veiðiferðirnar. Smári Rúnar Hjálmtýsson á Jóhönnu Gísladóttur sagði að síðustu dagana hefði verið mest áhersla lögð á karfaveiði. „Við lönduðum fullfermi af gullkarfa í Grundarfirði sl. fimmtudag. Karfann fengum við í Víkurálnum og það gekk vel að fá í skipið. Að löndun lokinni var haldið í Víkurálinn á ný og þar var áfram góð karfaveiði. Í seinni hluta þess túrs reyndum við að fá þorsk og ýsu en það gekk treglega. Það var síðan landað á ný á mánudag í Grindavík og aflinn var þá um 50 tonn. Það er heldur léleg þorsk- og ýsuveiði vestur af landinu um þessar mundir,” sagði Smári Rúnar.
Egill Guðni Guðnason á Vestmannaey sagði að veiðin hefði gengið vel. „Við fengum í skipið á 34 tímum en veitt var Utanfótar og á Herðablaðinu. Aflinn var nær eingöngu þorskur, hinn flottasti togarafiskur,” sagði Egill Guðni.
Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergey, hafði svipaða sögu að segja og Egill Guðni. „Þetta gekk ágætlega. Við byrjuðum á að taka eitt hol á Víkinni en síðan var haldið á Örvæntingarhorn og þar kláruðum við á einum og hálfum sólarhring. Það var reyndar fantaveiði hjá okkur í eina 16 tíma en síðan dró heldur úr. Aflinn er tiltölulega blandaður, mest af þorski og ufsa en síðan ýsa og karfi með,” sagði Ragnar.
Bæði Vestmannaey og Bergey koma til Neskaupstaðar á morgun og þá mun fara fram haffærisskoðun á skipunum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst