Vestmannaey VE hélt til veiða að afloknu jóla- og áramótafríi um miðnætti 1. janúar. Skipið hélt rakleiðis á Víkina og hefur aflað vel. Gert er ráð fyrir að það komi til löndunar á morgun. Bergur VE mun halda til veiða í dag, segir í frétt á vef Síldarvinnslunnar.
Þar segir jafnframt að Gullver NS sé í slipp á Akureyri þar sem öxuldráttur fari fram. Áætlað er að skipið geti haldið til veiða um komandi helgi.
Frystitogarinn Blængur NK mun halda til veiða í kvöld. Fyrsti túr ársins verður langur eða 40 dagar. Að loknum þessum fyrsta túr er ráðgert að skipið haldi til veiða í Barentshafi.
Uppsjávarveiðiskipin Barði NK, Beitir NK og Börkur NK héldu í nótt til kolmunnaveiða í færeyskri lögsögu. Gert er ráð fyrir að veitt verði austan við eyjarnar og eru rúmlega 300 mílur frá Neskaupstað á miðin.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst