„Jólahlaðborð Einsa Kalda og Hallarinnar heppnaðist í alla staði frábærlega, bæði matur og skemmtun, hvoru tveggja upp á tíu,“ segir Óskar Pétur, ljósmyndari um jólahlaðborðið í Höllinni á laugardagskvöldið. Er það fyrir löngu orðinn fastur liður á aðventunni í Eyjum. Höllin var fagurlega skreytt sem jók enn frekar á stemninguna.
„Gestir voru um 300 og áttu allir frábæra stund. Ekki er hægt að lýsa matnum í orðum, já, mig skortir hreinlega orð til að lýsa dásemdinni. Held bara að Einsi og hans fólk hafi náð að toppa sig í mat, þjónustu og skipulagi sem var til fyrirmyndar,“ segir Óskar Pétur og ekki voru skemmtiatriðin af verri endanum.
„Þar fór Jónsi úr Svörtum fötum fyrir glæsilegum hópi Eyjafólks sem lék við hvern sinn fingur. Gestir voru vel með á nótunum. Hljómsveitin Gosar, sem Gísli Stefáns, gítarleikari stjórnar fór á kostum. Hana skipa: Birgir Nielsen trommur, Gísli Stefánsson gítar, Sæþór Vídó gítar, raddir, Dúni Geirz (Þórir Rúnar Geirsson) bassi, Þórir Ólafsson hljómborð, Jarl Sigurgeirsson söngur slagverk ofl. Auk þess spilaði Matthías Harðarson með á Hammond, hljómborð ofl. Söngvarar voru auk Jónsa og Sæþórs þau Guðjón Smári, Eló, Tóti, Una og Sara Renee sem öll gerðu sitt til að fullkomna kvöldið,“ segir Óskar Pétur og nefndi að lokum leynigestinn sem sló í gegn.
„Það var hún Hafdís Víglunds sem sló í gegn með frábærum söng. Hef heyrt í henni áður með gítar og vil fá sjá og heyra meira frá henni.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst