Lokahnykkurinn á Safnahelginni fór fram í Sagnheimum í gær, sunnudag. Þar kynnti Halldór Svavarsson kynna nýútkomna bók sína Grænlandsför Gottu í Pálsstofu.
Grænlandsför Gottu er nýútkomin bók um efni sem mörgum Vestmannaeyingum hefur verið hugleikið. Árið 1929 fór mótorbáturinn Gotta VE108 í mikla ævintýaraför til Grænlands í þeim tilgangi að fanga þar sauðnaut sem margir álitu að gæti orðið kærkomin viðbót við einhæfan landbúnað í sveitum, sem áttu undir högg að sækja þegar fólkinu fór að fækka.
Ferð þessi var lengi í minnum höfð hér í Eyjum og oft til hennar vitnað. Enginn þeirra sem í ferðina fór hafði reynslu af siglingum í gegnum ís og allar aðstæður voru mönnum framandi. Það sem rak þá áfram hefur að öllum líkindum verið ungmennafélagsandinn, ævintýraþrá og löngunin til að láta gott af sér leiða. Það sem þessir ellefu menn þurftu að reyna og áhættan sem þeir tóku var með miklum ólíkindum. Allir komust þeir samt heilir heim og nautin sem náðust voru höfð til sýnis á Austurvelli í Reykjavík.
Halldór Svavarsson hefur safnað saman heimildum um ferðina og skrifað þessa ótrúlegu sögu. Halldór er Vestmannaeyingur og heyrði á unga aldri frá ævintýri Gottu. Halldór er seglasaumari og rak seglagerð hér í Eyjum um árabil, hann fluttist burt í gosinu en hefur haldið tryggð við Eyjarnar. Stutt grein í Bliki, ársriti Gagnfræðaskólans varð síðan til að vekja upp áhuga hans á þessari ótrúlegu Grænlandsför.
Einnig voru sýndar myndir úr eigu eins leiðangursfara, Þorvaldar Guðjónssonar frá Sandfelli sem varðveittar eru í Héraðskjalasafni Vestmannaeyja.
Vel var mætt á viðburðinn og vel að honum látið. Óskar Pétur var á staðnum og myndaði að vanda.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst