Skattadagur Deloitte var á fimmtudaginn í Akóges og var að vanda vel sóttur en þetta var þriðji Skattadagur Deloitte sem er haldinn í Vestmannaeyjum. Farið var yfir helstu skattabreytingar undanfarið ár sem er mikilvægt fyrir stjórnendur fyrirtækja að hafa yfirsýn yfir. Líka var farið yfir breytingar á lögum um ársreikninga auk þess sem Stefán �?ór Lúðvíksson hjá Eyjablikk sagði frá íbúðum sem hann ætlar að byggja ofan á Fiskiðjunni. Fundarstjóri var Hafsteinn Gunnarsson, yfirmaður Deloitte í Vestmannaeyjum.
Hafsteinn byrjaði á að segja frá fjölgun starfsmanna hjá Deloitte, sem starfað hefur í Vestmannaeyjum í rúmlega 35 ár. Á síðasta ári var fjölgað um tvo starfsmenn í bókhaldi og viðskiptalausnum og Pálmi Harðarsson, viðskiptafræðingur sem starfað hefur hjá Deloitte fluttist til Eyja á síðasta ári. Sagði Hafsteinn að þetta mætti m.a. þakka verkefnum sem starfsstöðin hér er að fá af fastalandinu.
Pétur Steinn Guðmundsson, á skatta- og lögfræðisviði Deloitte fór yfir helstu skattabreytingar sem orðið hafa síðasta árið. Hann sagði að vilji fyrirtækja væri einföldun skatta, skilvirkari skattaframkvæmd og færri undanþágur. Sagði Pétur Steinn að við þessu hefði verið brugðist auk þess sem innleiddar hefðu verið breytingar til að styðja nýsköpunarfyrirtæki og fyrirtæki í vexti.
Helgi Einar Karlsson, endurskoðandi hjá Deloitte fór m.a. yfir nýlegar breytingar á ársreikningum og löggjöf um endurskoðun sem væri bæði einfaldi og gegnsærri en hefðu líka aukið flækustig sem þyrfti að vinda ofan af. Tilganginum hefði verið náð að einhverju leyti en ekki öllu.
Stefán sagði frá hugmyndum sínum um að byggja átta íbúðir ofan á Fiskiðjuna þar sem verbúðirnar voru. Lokið er við að rífa þær niður og verður hafist handa við byggingu íbúðanna, sem verða frá 70 fm upp í 200 þegar endanleg hönnun liggur fyrir.