Þrír verðlaunahafar í matreiðslukeppnum kokkaskóla í Suður-Evrópu heimsóttu Vinnslustöðina á dögunum til að kynna sér vinnslu saltfisks, vöru sem þeir þekkja af góðu einu og eru hrifnir af að fást við í eldhúsum. Gestirnir voru Diego Antonio Chavero Rosa frá Spáni, Gonçalo Pereira Gaspar frá frá Portúgal og Francisco Orsi frá Ítalíu og komu hingað til lands ásamt kennurum sínum.
Íslandsferðina hlutu kokkarnir í sigurlaun og til Vestmannaeyja komu þeir í fylgd Björgvins Þórs Björgvinssonar og Kristins Björnssonar frá Íslandsstofu. Hópurinn skoðaði saltfiskvinnslu VSV og fór sömuleiðis um borð Breka VE til að komast enn nær uppruna saltfisksins!
Á vef Íslandsstofu er haft eftir Ítalanum Orsi:
„Það er okkur mikil ánægja að heimsækja ykkar fallega land og að kynnast uppruna fisksins, sem við þekkjum svo vel. Vonandi getum við miðlað og skilið eftir eitthvað af okkar matreiðsluhefðum í leiðinni.”
Efnt var til matreiðslukeppni í ríkjunum þremur sem hluta verkefnis Íslandsstofu, Bacalao de Islandia, og þar kemur Menntaskólinn í Kópavogi einnig við sögu. Þetta var nú gert í þriðja sinn og saltfiskkeppnin hefur þannig haslað sér völl sem fastur liður í starfi kokkanemanna suður þar í álfunni.
Matreiðslunemarnir kynntu verðlaunaréttina sína í Hótel- og veitingaskólanum í MK 19. september og íslenskir kokkanemar elduðu við sama tækifæri eigin útgáfur af veislumat með saltfisk í aðalhlutverki.
Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfiskssviðs, var gestgjafi og leiðsögumaður verðlaunakokkanna og fylgdarliðs þeirra í Vinnslustöðvarheimsókninni:
„Þessir gestir voru afar velkomnir og áhugasamir og verða örugglega öflugir bandamenn við að kynna íslenskan saltfisk heima fyrir í framtíðinni.
Gaman að taka þátt í þessu verkefni og Íslandsstofa á heiður skilinn fyrir að standa vel að málum.“
Af vsv.is þar sem er að finna fleiri myndir.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst