Þann 16. desember sl. voru opnuð tilboð í flóðlýsingu við Hásteinsvöll. Málið var tekið fyrir á fundi framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja á mánudaginn var. Fram kemur í fundargerð ráðsins að alls hafi borist þrjú tilboð í verkið.
Lægsta tilboðið kom frá Altis ehf. og hljóðaði það upp á 63.182.050 krónur. Vallar Verk ehf. bauð 92.410.000 krónur og Metatron ehf. 103.876.000 krónur. Kostnaðaráætlun fyrir framkvæmdina nam 94.305.000 krónum.
Brynjar Ólafsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs kynnti niðurstöður tilboða fyrir ráðinu. Í kjölfarið samþykkti framkvæmda- og hafnarráð að taka tilboði lægstbjóðanda, Altis ehf., og fól framkvæmdastjóra sviðsins að ganga til samninga við fyrirtækið á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs.