Vestmannaeyjar skora hæst meðal 20 stærstu sveitarfélaga á Íslandi þegar spurt er um ánægju íbúa með sveitarfélagið sitt sem stað til að búa. Þetta var kynnt rétt í þessu á íbúafundi sem fram fer í Eldheimum. Einnig var til umræðu staða rafmagnsmála í Vestmannaeyjum.
Samkvæmt árlegri þjónustukönnun Gallup ríkir almenn ánægja meðal bæjarbúa með þjónustu bæjarins. Það er afskaplega ánægjulegt frá því að segja að alls voru 94% þátttakenda ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á og skora Vestmannaeyjar þar hæst á meðal allra sveitarfélaganna, með einkunnina 4,5 af 5 mögulegum. Milli ára fjölgar marktækt í hópi ánægðra íbúa í Eyjum.
Vestmannaeyjabær er auk þess í efsta sæti í 4 þáttum til viðbótar, af 13, þegar spurt er um ánægju íbúa: þjónustu við fatlaða, þjónustu við barnafjölskyldur, í menningarmálum og hvernig starfsfólk bæjarins leysir úr erindum íbúanna. Þetta er mjög jákvætt og gott veganesti í þeirri vinnu að bæta enn frekar þjónustu við bæjarbúa.
Af könnunni má ráða að við þurfum helst að bæta okkur í sorpmálum, þótt þarf hafi náðst marktækur árangur á síðustu tveimur árum.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, kynnti þessar niðurstöður á almennum íbúafundi sem haldinn var í dag. Jafnframt var á þeim fundi rædd sú alvarlega staða sem komin er upp í rafmagnsmálum í Vestmannaeyjum vegna bilunar í sæstreng. Forsvarsmenn Landsnets og HS-veitna tóku þátt í fundinum.
Hægt er að sjá niðurstöður þjónustukönnunar Gallup (hér)
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst