Vinsælasti söngvari og poppari Íslands undanfarin rúm 40 ár, sjálfur Björgvin Halldórsson, er á leið til Eyja og skemmtir Eyjamönnum og gestum þeirra í Höllinni þann 17.mars. Björgvin mætir ásamt 6 manna hljómsveit og heldur svipaða tónleika og hann hélt í tilefni sextugs afmælisins á liðnu ári. Ekki nóg með að hann spili rjómann af sínum bestu lögum á tónleikum, heldur ætlar hann síðan að halda ball í anda Björgvins og Brimklóar, enda á hljómsveitin 40 ára afmæli á þessu ári, eins og önnur flott og fræg sveit, hljómsveitin Eagles.