Viðgerð er að hefjast á stofnæð á gatnamótum Skólavegar og Vestmannabrautar. Að sögn Ívars Atlasonar, svæðisstjóra vatnssviðs HS Veitna í Vestmannaeyjum er verið að fara í viðgerð á hitaveitulögninni.
„Við gröfum í dag og stefnum á viðgerð á morgun. Tilkynning verður send út í dag til þeirra sem verða fyrir truflunum meðan á viðgerð stendur. Vonandi getum við opnað gatnamótin fyrir helgi. Ef veðurspáin gengur eftir þ.e.a.s. frost í næstu viku, verður ekki hægt að klára yfirborðsfrágang strax.“ segir Ívar í samtali við Eyjar.net.
Líkt og kom fram hjá Sigrúnu Ingu Ævarsdóttur, samskipta og markaðsstjóra HS Veitna í samtali við Eyjar.net í síðustu viku fundust fimm lekar á hitaveitukerfinu í lekaleit sem hafði staðið yfir frá upphafi árs.
Hún sagði jafnframt að mikilvægt væri að undirbúa þessi verk vel og að veðurfar sé ákjósanlegt á meðan á viðgerðum stendur. Lokað er fyrir heitt vatn hjá íbúum og fyrirtækjum.
“Einn af þeim lekum sem gera þarf við er á stofnæð á gatnamótum Skólavegar og Vestmannabrautar. Þar sem um stofnæð er að ræða verður viðgerðin töluvert umfangsmikil og gera má ráð fyrir að hún taki nokkra daga. Íbúar munu því verða varir við framkvæmdina þar sem loka þarf fyrir heitt vatn á nokkuð stóru svæði í miðbænum á meðan á henni stendur. Með góðum undirbúningi og skipulagi verður leitast við að lokun fyrir heita vatnið vari í sem skemmstan tíma þótt framkvæmdin í heild sinni feli í sér mikið rask og taki töluverðan tíma.“ sagði Sigrún Inga.
https://eyjar.net/fimm-lekar-fundnir/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst