Umfangsmikil verkföll blasa við, eftir að samningafundi BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga lauk í nótt án niðurstöðu. Ekki hefur verið boðað til annars fundar en deilendur höfðu setið á rökstólum í næstum 13 klukkustundir.
Verkfallið sem hófst í morgun nær til 2.500 félagsmanna BSRB í 29 sveitarfélögum. Aðgerðirnar hafa áhrif á starfsemi 70 leikskóla, nær til almenningssamgangna, vinnuskóla, bæjarskrifstofa, sundlauga og áhaldahúsa. Nánar má lesa um fyrirhugaðar aðgerðir á vef BSRB. Staðan í samningaviðræðunum var í kvöld sögð „grafalvarleg“.
Það sem helst strandaði á var krafa BSRB um eingreiðslu sem nemur mismun annarra samninga frá áramótum, en tilboðið gildir frá fyrsta apríl, frá þeim tíma sem samningar runnu út.
Á vef BSRB segir að ekki sé gripið til verkfallanna af léttúð. Þeim sé ætlað að knýja fram kröfur gagnvart sveitarfélögum landsins sem neita að leiðrétta launamisrétti gagnvart starfsfólki sínu.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir gríðarleg vonbrigði að ekki hafi tekist að ná lengra. Ábyrgð allra sé mikil en þungi færist nú í aðgerðir uns lausn fáist í málið.
„Þótt eitthvað hafi þokast í samningsátt á samningafundum síðustu daga neitar Samband íslenskra sveitarfélaga enn að koma til móts við réttláta kröfu okkar um sömu laun fyrir sömu störf,“ segir Sonja á vef BSRB.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst