Eitt af því sem mestu skiptir um hvort söfn dafni eða deyi er alúð og ástríða þeirra sem þar starfa. Með því á ég ekki einungis við fasta starfsmenn safnsins hverju sinni, þótt þeir skipti vissulega miklu. Ég á ekki síður við alla þá sem með einum eða öðrum hætti rétta safninu hjálparhönd, hvort heldur þeir eru lausráðnir eða sjálfboðaliðar.
Þegar ég vann í handritadeild Landsbókasafnsins þótti mér Páll Eggert Ólason einhver öflugasti samstarfsmaðurinn, enda þótt hann væri sjálfur löngu horfinn af sjónarsviðinu. Ævistarf hans var alls staðar sýnilegt og daglega þurfti ég að fletta upp í honum til að glöggva mig á skráningu handrita eða túlka eitthvert vafaatriðið. Þegar ég flutti hingað til Eyja og tók að starfa á safninu þóttist ég hafa hitt fyrir annan Pál Eggert í Þorsteini Víglundssyni, föður Víglundar. Þorsteinn varð mér samskonar leiðbeinandi frá fyrstu tíð enda allstaðar sýnilegur, í ítarlegri umfjöllun sinni um safnmuni, í hinu ómetanlega blaða- og tímaritasafni sínu, í nafngreiningum á myndum úr safni Kjartans Guðmundssonar og í greinargerðum sínum um skjöl, listaverk eða hvað annað sem varðveitt er í Safnahúsinu.
Afmælisbarni dagsins er best lýst með því að benda á þessa tvo stórvirku einstaklinga sem báðir skildu eftir sig óafmáanleg spor þar sem þeir störfuðu langa ævi. Þegar mér verður hugsað til framlags Víglundar til menningararfs Vestmannaeyja finnst mér hann ekki standa langt að baki föður sínum, sem ég þó virði umfram alla þá einstaklinga sem hafa nokkru sinni unnið að menningarmálum í Vestmannaeyjum. Slíkur er afrakstur þessa eljumanns sem þó hefur aðeins sinnt safnastarfi í sjálfboðavinnu eftir að farsælum starfsferli lauk.
Heimavöllur Víglundar hefur ávallt verið menningarvefurinn Heimaslóð sem Frosti Gíslason átti stærstan þátt í að ýta úr vör árið 2005. En Víglundur sem tók Heimaslóð hjartfóstri innan við ári frá opnun vefsins hefur allt frá þeim tíma unnið þrotlaust starf við að gera sögu og menningu Vestmannaeyja aðgengilega almenningi.
Mér er í fersku minni þegar við starfsmenn í Safnahúsi tókum á árunum 2007 til 2010 þátt í að setja tímarit föður hans, Blik, inn á Heimaslóð, með allan sinn botnlausa fjársjóð, á um 6.000 blaðsíðum, um hvaðeina sem viðkemur sögu Eyjanna. Þar stóð einn maður upp úr, sá sem endalaust fór yfir hið skannaða og innslegna efni og leiðrétti. Þar var kominn sá Víglundur sem allir sem vilja að Heimaslóð vaxi sem mest og best hafa æ síðar getað reitt sig á.
Fjölmörg önnur stórvirki Víglundar mætti nefna. Þegar nokkrir vinir Árna Árnasonar símritara gáfu út úrval verka hans á bók árið 2012 var ákveðið að freista þess að setja inn á Heimaslóð allt það menningarefni sem Árni skildi eftir sig og er varðveitt í skjalasafni Vestmannaeyja. Vann þá Víglundur eitt afrekið enn með því að leiðrétta og bæta, setja inn og yfirfara allar þær tæplegu 400 greinar sem þá voru birtar á Heimaslóð.
Það væri vissulega hægt að tilgreina miklu fleira sem Víglundur hefur áorkað á Heimaslóð en ég vil aðeins að þessu sinni víkja að síðasta stórvirki hans sem hann er raunar enn að vinna að. Fyrir nokkrum árum hóf Víglundur að taka saman Æviskrár Eyjafólks. Þar munu nú vera komnar samantektir um tæplega 10.000 Eyjabúa, lífs sem liðna, og bætist stöðugt í hópinn. Frá hverjum og einum er vandlega sagt og liggur oft og tíðum á bak við mikil vinna við lestur frumgagna eða leit að einstaklingum sem gætu gefið upplýsingar eða staðfest einstök atriði. Mun fæsta renna grun í hve mikla vinnu slíkt getur úrheimt. Það er afskaplega gefandi að lesa sig til um Eyjafólkið en ekki síður er það áhugavert hversu auðvelt er að „lesa betur“ með því að nýta stafræna tækni til að kalla fram nýtt og nýtt ítarefni, ekki þarf annað en smella á viðkomandi efni og þá birtist ný umfjöllun á skjánum. Það má því segja að greinarnir séu óþrotlegur brunnur, það er alltaf hægt að fræðast meira, kafa dýpra og tengja saman ólíka ævivegi.
Fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar og Vestmannaeyinga allra vil ég þakka þér, Víglundur Þorsteinsson, fyrir þitt ómetanlega framlag árum saman við að gera menningararf Vestmannaeyja öllum aðgengilegan á Heimaslóð. Án þín væri Heimaslóð ekki sá öflugi og margþætti menningarvefur sem hann er orðinn. Vita máttu að við munum lengi njóta verka þinna og við vonum að þú haldir ótrauður áfram meðan starfsorkan endist. Aldur er afstæður við starfsþrekið.
Hafðu kæra þökk frá öllum sem unna menningararfi Vestmannaeyja fyrir þína ástríðu og alúð í tæplega tuttugu ára starfi við að vinna Eyjunum allt.
Kári Bjarnason
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst