Það var hinn níu ára gamli Alex Óli Jónsson sem bar sigur af hólmi í Söngvakeppni barnanna í flokki 9 til 12 á Þjóðhátíð í ár. Alex Óli söng sig inn í hjörtu þjóðhátíðargesta með laginu „Lítill drengur” eftir Magnús Kjartansson og Vilhjálm Vilhjálmsson. Í yngri flokki voru það Eyjastúlkurnar Margrét Perla Bragadóttir og Saga Margrét Sindradóttir, 6 ára, sem sigruðu með þjóðhátíðarlaginu frá því í fyrra.
Alex Óli býr í Kópavogi ásamt fjölskyldu sinni en hann á frændfólk í föðurlegg í Vestmannaeyjum. Þá vann móðurafi hans lengi á Vestmannaey VE og á fjölskyldan mikið af vinafólki í Eyjum vegna þess. Þetta er í fyrsta skiptið sem Alex Óli fer á Þjóðhátíð en hann er staðráðinn í að mæta aftur að ári.
Ekki mikið fyrir Villa Vill
„Nei, bara alls ekki” segir hann er spurður hvort hann hlusti mikið á Vilhjálm Vilhjálmsson. Lagið sé þó í uppáhaldi en hann hafi þurft að læra það fyrir tónlistarþættina „Bestu lög barnanna” á Sjónvarpi Símans. Upptökur af þáttaröð tvö eru í gangi núna og koma þættirnir út eftir áramót. Eftirlætistónlistarmenn Alex Óla eru þeir bræður Jón Jónsson og Friðrik Dór, en þá er Herra Hnetusmjör líka í miklu uppáhaldi.
Frá þriggja ára aldri hefur Alex Óli verið á fullu í samkvæmisdansi. Hann æfir með Dansíþróttafélagi Kópavogs og ásamt því að hafa keppt mikið innanlands hefur hann þrisvar sinnum keppt úti í Englandi. Hefurðu unnið til margra verðlauna? „Rosalega margra sko, ég hef unnið nítján bikara og þrjátíu medalíur.” Þá var Alex Óli einnig í söngnámi frá fimm til sjö ára aldri þegar hann tók þrjár annir í Söngskóla Maríu Bjarkar.
Ólýsanleg tilfinning
„Ég átti ekki von á þessu og var bara ótrúlega glaður” segir Alex Óli um sigurinn og bætir við að hann hafi fundið fyrir smá stressi í byrjun en þegar hann var byrjaður að syngja var það fljótt að líða hjá. „Eins og ég sagði í viðtali við Stöð 2 þá vildi ég að ég gæti gert þetta alveg hundrað milljón sinnum.”
Foreldrar Alex Óla, þau Jón Rúnar Gíslason og Þórunn Anna Ólafsdóttir, eru að rifna úr stolti yfir syninum og segja tilfinninguna ólýsanlega. „Ekki hægt að vera stoltari” segir Þórunn. Á heimili fjölskyldunnar er mikið um tónlist og taka þeir feðgar oft lagið saman en þá syngur Alex Óli við undirspil pabba síns á gítar.
En hvað gerðir þú í Eyjum annað en að vinna keppnina? „Það var ógeðslega mikið sko. Ég fór í sund og fór náttúrulega á kvöldvökurnar þegar það var verið að syngja, og svo spranga og fullt.” Nú byrjar rútínan aftur hjá Alex Óla eins og svo mörgum en hann er á leið í 5. bekk í Lindaskóla og hlakkar mikið til.
„Takk fyrir mig og sjáumst á næsta ári” segir Alex Óli, ungi tónlistarlistamaðurinn og danskappi, að lokum.
Viðtalið við Alex Óla er einnig að finna í 16. tölublaði Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst