HS Veitur hafa óskað eftir því að Vestmannaeyjabær leysi til sín vatnsveituna í Vestmannaeyjum.
Þetta kemur fram í umfjöllun mbl.is í dag. Þar segir jafnframt í svari HS Veitna til Morgunblaðsins að Vestmannaeyjabær beri ábyrgð á lögninni og sé skylt að koma að greiðslu kostnaðar við viðgerðirnar. Þá ábyrgð hafi bærinn ekki axlað og vísað henni með öllu frá sér. Í ljósi þeirrar afstöðu sveitarfélagsins sé það mat HS Veitna að rekstrarforsendur vatnsveitunnar séu brostnar.
Þá segir að frá því Huginn VE hafi ollið stórtjóni á vatnslögninni í nóvember hafi HS Veitur ítrekað lagt áherslu á að Vestmannaeyjabær beri ábyrgð á lögninni sem eigandi og sé þannig skylt að koma að greiðslu kostnaðar við að koma lögninni í nothæft ástand.
Segir ennfremur í frétt mbl að fyrir liggi lögfræðileg álitsgerð sem unnin var fyrir innviðaráðuneytið þar sem komist er að sömu niðurstöðu.
HS Veitur vænta þess að viðræður milli aðila hefjist fljótlega, en tekið er fram að framangreint hafi ekki áhrif á þann rekstur og ekki er gert ráð fyrir fækkun starfsmanna.
Haft er eftir Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra í umfjölluninni að hún ekki hafa fengið erindi HS Veitna inn á borð til sín, þegar rætt var við hana um miðjan dag í gær.
https://eyjar.net/agreiningur-um-skyldur-og-abyrgd/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst