Vilji allra að veita foreldrum góða og trausta þjónustu
4. febrúar, 2024
ráðhúsið_börn
Ráðhús Vestmannaeyja. Eyjar.net/Tryggvi Már

Líkt og greint var frá á föstudaginn síðastliðinn gætir talsverðrar óánægju hjá foreldrum barna sem reiða sig á heimgreiðslur á meðan beðið er eftir leikskólaplássi. Um er að ræða greiðslur til foreldra/forráðamanna barna frá 12 mánaða aldri.

https://eyjar.net/heimgreidslur-ekki-ad-skila-ser/

Eyjar.net bað Hildi Sólveigu Sigurðardóttur, bæjarfulltrúa og varaformann fræðsluráðs um  að útskýra fyrir lesendum Eyjar.net um hvað málið snýst og einnig var spurt hvort hún muni taka málið upp innan fræðsluráðs.

„Í lok síðasta árs var tekin ákvörðun um breytingar á fyrirkomulagi heimgreiðslna. Meirihluti H- og E- lista vildi tekjutengja heimgreiðslurnar og hækka greiðslurnar talsvert fyrir þá sem voru tekjulægri. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfðu uppi efasemdir um fyrirkomulagið og voru því ekki samþykk þessum breytingum við afgreiðslu hvorki í fræðsluráði, bæjarráði né bæjarstjórn.“

https://eyjar.net/afram-tekist-a-um-heimgreidslur/

Þá segir Hildur að helstu ástæður efasemda þeirra hafi verið sú að ljóst var að með tekjutengingunni myndi hópur foreldra ekki lengur eiga rétt á þessum greiðslum eða fá talsvert lægri greiðslur og það myndi gagna gegn tilgangi heimgreiðslna að okkar mati, sem átti að gera öllum foreldrum auðveldara að dvelja lengur heima með börnum sínum, ekki bara þeim tekjuminni.

Gott samstarf innan fræðsluráðs

„Fyrir utan þá staðreynd að séu tekjuminni foreldrar í tekjuörðugleikum eða greiðsluvanda eru önnur úrræði innan sveitarfélagsins á borð við fjárhagsaðstoð sem hægt er að grípa til. Með því að veita öllum foreldrum heimgreiðslur líkt og áður var gert er þessi hvati til staðar fyrir alla foreldra, óháð stöðu, að dvelja lengur heima, sem er óneitanlega ákjósanlegri kostur að foreldrar eigi fleiri samverustundir með ungum börnum sínum á sama tíma og það dregur úr eftirspurn og þörf á kostnaðarsömum leikskólaplássum en kostnaður við leikskólavistun yngstu barnanna er mikill og vaxandi hjá sveitarfélaginu.
Ég hef óskað eftir og fengið jákvæð viðbrögð við því að þetta mál verði rætt á næsta fundi fræðsluráðs og tel líklegt að við fáum þá greinargóðar upplýsingar um nákvæmlega hvaða áhrif þessi ákvörðun er að hafa á úthlutun heimgreiðslna. Þegar þær upplýsingar liggja fyrir geri ég ráð fyrir að upp komi tillögur um að leysa þessa stöðu sem upp er komin og eflaust einfalda fyrirkomulagið með einhverjum hætti.
Það hefur verið gott samstarf innan fræðsluráðs og vilji allra fulltrúa þar er að veita foreldrum góða og trausta þjónustu, okkur greinir stundum á um leiðir að því markmiði en ég hef fulla trú á að við getum breytt þessu til hins betra í sameiningu.“

segir Hildur Sólveig að endingu.

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst