Vinnslustöðin er einn stærsti, ef ekki stærsti, vinnuveitandi í Eyjum. Alls vinna hjá félaginu 460 manns, þar af um 380 í Vestmannaeyjum. Félagið velti 33 milljörðum á síðasta ári. Það er því augljóslega mikilvægur hlekkur í sterkri keðju Eyjanna.
Allir sem þekkja eitthvað til Eyjanna, þekkja til Vinnslustöðvarinnar. Við fengum Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, Binna í Vinnslustöðinni, til að fara yfir stöðuna með okkur, segja okkur frá stöðunni eins og hún er í dag og hvernig hann sér framtíð félassgins fyrir sér.
Vinnslustöðin er ekki bara eitt, heldur mörg félög. Vinnslustöðin sjálf er að verulegu leyti eins og hún hefur verið undanfarna áratugi. Við erum með saltfiskvinnsluna á sínum stað, en erum reyndar að byggja nýtt hús yfir hana, svo er uppsjávarvinnslan í nýbyggðu húsnæði og þessu auk þess er útgerðin eins og verið hefur, annars vegar uppsjávarútgerð og hins vegar botnfiskútgerð.
En þessu til viðbótar, þá á Vinnslustöðin allt hlutafé Hugins, sem á og rekur samnefnt skip, Ós, sem á og rekur Þórunni Sveinsdóttur VE, Leo Seafood, fiskvinnslu, og svo má ekki gleyma Marhólmum, félagi sem sérhæfir sig í fullvinnslu loðnu-, þorsk- og ufsahrogna. Þá á Vinnslustöðin meirihluta í Hólmaskeri, félagi sem starfar í Hafnarfirði og sérhæfir sig í handflökun á ýsu. Auk þessa á Vinnslustöðin Grupeixe, félag í Portúgal, sem selur og dreifir þurrkuðum saltfiski sem aðallega er unninn í Eyjum. Þetta er að sjálfsögðu heilmikil starfsemi. Þess utan eigum við svo hlut í hausaþurrkuninni Löngu og í niðursuðufyrirtækinu Idunni Seafoods hér í Eyjum.
Söluskrifstofur víða um land
Svo má ekki gleyma því að við erum með söluskrifstofur í Þýskalandi, Frakklandi, Japan, Finnlandi og Portúgal auk þess að vera með skipulagningu á sölu og flutningum afurða félagsins í VSV Seafood Iceland, sem er staðsett í Eyjum. Það er því heilmikil breyting frá því sem áður var.
Nú er Vinnslustöðin aðallega staðsett í Eyjum, eins og þú lýsir, en hvernig er með starfsemi í Hafnarfirði og út um heim. Er þetta ekki flókið að stýra þessu öllu?
,,Nei, það er ekki flókið. Eftir að við fengum COVID-ið, þá varð allt miklu auðveldara. Við tökum flesta fundi í fjarfundabúnaði þar sem við deilum gögnum og vinnum saman. Við erum t.d. eiginlega alveg hætt að fara til Reykjavíkur á fundi með bönkum sem var oft og iðulega. Það lærðu allir að nota fjarfundabúnað sem er mikil blessun fyrir okkur. Ferðalög hafa hreinlega minnkað með stærra og umfangsmeira félagi!“ sagði Binni.
Rík samfélags ábyrgð
Öllum er ljóst að umfang Vinnslustöðvarinnar er mikið í Eyjum og það er mikið litið til ykkar í ýmsum málum. Þið sætið gagnrýni fyrir ýmislegt, þið mættuð gera meira og koma að fleiri málum. Hvert er ykkar sjónarhorn á því?
,,Við gerum okkur grein fyrir ríkri samfélagslegri ábyrgð Vinnslustöðvarinnar. Við erum augljóslega mikilvægt félag í Eyjum. En hver er samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja? Ég held að fáir sjái hana sömu augum. Í mínum huga er mikilvægasta ábyrgð fyrirtækja, sérstaklega fyrirtækja eins og Vinnslustöðvarinnar og Ísfélagsins, sem eru stór og þýðingarmikil í sínum samfélögum, að þau séu vel rekin og skili hagnaði. Fyrirtæki sem ekki skilar hagnaði á í rekstrarerfiðleikum og fer á hausinn fyrr eða síðar og getur því ekki borið samfélagslega ábyrgð. Fyrirtæki í hagnaðarrekstri skapa trausta atvinnu og ný atvinnutækifæri sem er undirstaða þess að fólk vilji búa á þeim stöðum eða í þeim löndum. Fyrirtæki í hagnaðarrekstri geta fjárfest í nýsköpun eða fært út kvíarnar, eins og Vinnslustöðin hefur vissulega verið að gera. Með kröftugri atvinnustarfsemi þá skapast skatttekjur til sveitarfélaganna og þau geta staðið undir sinni þjónustu við íbúana. Þannig má lengi telja. Hagnaðarrekstur fyrirtækja er undirstaða þess að þau geti verið samfélagslega ábyrg. Hún er t.d. ekki mikil samfélagsleg ábyrgð í þeim löndum þaðan sem fólk er að flýja!“ segir Binni.
Margt í gangi
En framtíðin, hvernig sér Binni framtíð Vinnslustöðvarinnar fyrir sér?
,,Það er rosalega erfitt að spá. Þegar ég lít til baka þá hefði mér aldrei dottið til hugar að við værum komin þangað sem við erum í dag. Margir spáðu Vinnslustöðinni gjaldþroti árið 1999 þegar ég tók við sem framkvæmdastjóri. Ég hafði enga trú á mér í starfið þegar ég réði mig í sex mánuði það árið. En einhvern veginn tókst þetta allt með samstilltu átaki og góðu starfsfólki. Gott starfsfólk er lykillinn að árangri í fyrirtækjarekstri, alveg eins og í hópíþróttum. Góð gæði einstaklings í handbolta skipta litlu máli ef liðið er lélegt!
Okkar glíma núna er að við erum að endurnýja saltfiskvinnsluna með nýbyggingu sem þegar er farin af stað. Þá byggingu ætlum við líka að nýta fyrir uppsjávarvinnsluna en þar erum við knúin til endurbóta á innvigtun í kjölfar reglugerðabreytinga. Síðan er brýn nauðsyn að endurnýja botnfiskskipin, Kap og Drangavík, sem eru orðin lúin og ekki í takt við nútímann. Við vonum bara að allt þetta gangi vel og við ráðum við að greiða af þeim skuldum sem við höfum stofnað til og þurfum að gera í tengslum við uppbyggingu okkar. Þar þurfum við á hverri krónu að halda.“ segir Binni að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst