Á föstudaginn hóf Klaudia Beata Wróbel, störf sem fjömenningarfulltrúi hjá Vestmannaeyjabæ. Klaudia er 21 árs, fædd í Póllandi og kom til Íslands 2008. Talar mjög góða íslensku og útskrifaðist sem stúdent frá Farmhaldsskólanum í Vestmannaeyjum í desember sl. Var hún valin úr hópi fjögurra umsækjenda. Klaudia er komin með íslenskan ríkisborgararétt.
„Ég kom til landsins 11 ára gömul, beint inn í hrunið 2008. Pabbi hafði verið hér í þrjú ár en þarna komum við, ég, mamma mín og bróðir og fluttumst til Þorlákshafnar,“ segir Klaudia sem líkaði vel í Þorlákshöfn og ekki síst var hún ánægð með Grunnskólann sem tók vel á móti útlendingum.
Ánægð í Þorlákshöfn
„Það hjálpaði hvað ég var ung. Útlendu krakkarnir fengu aðstoð í nýbúaveri nema í ensku, stærðfræði og valáföngum. Þar vorum við með bekknum en svo í nýbúafræðslunni þar sem við vorum þjálfuð upp í íslensku, í orðaforða og beygingum sem geta verið erfiðar. Þegar við náðum tökum á íslenskunni fórum við yfir í bekki með hinum krökkunum. Þarna voru frábærir kennarar, konur sem hjálpuðu okkur mikið og fyrir það er ég þeim mjög þakklát.“
Í Grunnskólanum hér er eitt námsver þar sem nýbúar og krakkar með leserfiðleika geta sótt sér aðstoð. Telur Klaudia að nýbúaver reynist betur. „Ég er ekki að segja að þetta sé slæmt í skólanum hérna en það má alltaf gera betur. Og það skiptir svo miklu máli að útlendu krakkarnir nái sem fyrst tökum á íslenskunni.“
Til Vestmannaeyja
Klaudia kláraði grunnskólann í Þorlákshöfn. Tók eina önn í FSU á Selfossi þar sem hún rakst á vegg. „Þá tók ég ákvörðun um að taka mér frí frá skóla en þá var enga vinnu að hafa í Þorlákshöfn. Kom hingað 2013, byrjaði að vinna í Krónunni, seinna í Godthaab sem í dag er Leo Seafood. Þar vinn ég við þrif á vélum og búnaði auk þess að vinna sem fjölmenningarfulltrúi frá og með deginum í dag. Mér líkar vel í Vestmannaeyjum. Hér er svo fallegt og ég reyni eins og ég get að lokka hingað ættingja og vini til að sjá dýrðina. Hér eru líka góðir atvinnumöguleikar og á meðan svo er held ég mig hér,“ segir Klaudia.
Verkefnin næg
Og hún sér fram á næg verkefni í nýju starfi því hér búa um 400 manns, milli níu og tíu prósent bæjarbúa sem eru af erlendu uppruna. Þar af er um helmingurinn Pólverjar. Og hún hefur reynslu af því að hjálpa löndum sínum. „Þegar það fréttist að ég talaði íslensku bað fólk mig um að þýða fyrir sig, hjálpa í samskiptum við lækna og ég hef verið að aðstoða í Grunnskólanum. Það koma tarnir í þessu en það er gaman að geta hjálpað fólki.
Það eru of margir Pólverjar hér sem ekki tala íslensku og það er mjög erfitt. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Við erum mörg hérna og höldum hópinn. Sumir koma hingað í styttri tíma til að ná sér í pening. Vinna mikið, allt að tólf tíma á dag, sakna fjölskyldunnar og þá ertu ekki reyna að læra nýtt tungumál. Aðrir koma hingað til að setjast að og reyna þá meira til að komast inn í samfélagið hér í Eyjum og að því ætla ég að vinna.“
Fjölbreyttur hópur
Auk Pólverja segir hún Portúgala og Rúmena fjölmenna í Eyjum. Í leikskólum eru nemendur úr hópi nýbúa, um 40 í Grunnskólanum en ekki nema fjórir til fimm í Framhaldsskólanum. „Þar er mikið brottfall. Það eru mikil viðbrigði að koma úr Grunnskólann upp í Framhaldsskóla þar sem lesblindir eru þeir einu sem fá einhverja aðstoð. Sjálf kláraði ég Framhaldsskólann og útskrifaðist í desember en það hjálpaði mér hvað ég var ung þegar ég flutti til landsins og hvað ég fékk mikla aðstoð frá kennurum í grunnskóla,“ sagði Klaudia sem vill breyta þessu.
Hafið samband
Hún segir þá sem eru í kringum hana líta starf hennar jákvæðum augum og sjálf hlakkar hún til. „Flestir útlendingarnir sem hér búa eru ánægðir þó alltaf megi finna eitthvað að. Ég vona að mitt starf sem fjölmenningarfulltrúi verði sá gluggi sem ætlast er til fyrir erlenda íbúa Vestmannaeyja inn í samfélagið hér. Sjálf er ég mjög spennt og hlakka til. Ég er með aðstöðu í Safnahúsinu og hvet fólk til að kíkja við eða hafa samband ef eitthvað er,“ sagði Klaudia, fjölmenningarfulltrúi Vestmannaeyjabæjar að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst