Bæjarstjóri fór yfir stöðu Covid í Vestmannaeyjum og hertar samkomutakmarkanir stjórnvalda sem tóku gildi á sunnudaginn var á fundi bæjarráðs í vikunni.
Aðgerðastjórn Vestmannaeyja fundar reglulega um stöðuna og sendir frá sér tilkynningar í kjölfar funda um stöðu faraldursins í Vestmannaeyjum.
Bæjarstjóri og formaður bæjarráðs áttu óformlegan fund með fulltrúum ÍBV íþóttafélags í vikunni vegna stöðunnar sem upp er komin. Ljóst er að hertar samkomutakmarkanir leiða til þess að ekki verður hægt að halda Þjóðhátíð um verslunarmannahelgina eða aðra fjölmenna viðburði næstu þrjár vikurnar. Fylgst verður með framhaldinu þegar staðan verður endurmetin um miðjan ágústmánuð.
Ákvörðun stjórnvalda um hertar samkomutakmarkanir innanlands eru vonbrigði, því ekki er nema mánuður síðan að öllum takmörkunum var aflétt. Hins vegar er ljóst að nýtt afbrigði dreifir sér hratt um samfélagið, sem ber að taka alvarlega.
Bæjarráð hvetur fólk til að huga að persónubundnum smitvörnum og kynna sér þær takmarkanir sem eru í gildi.
Ánægjulegt er að Þjóðhátíðin hafi ekki verið blásin af og eru vonir bundnar við að hægt verði að halda hátíðina síðar í sumar, eða snemma í haust.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst