Eins og svo oft áður var mikill vorbragur á leik ÍBV-liðsins í upphafi Íslandsmótsins en í kvöld mætti liðið Fram á Laugardalsvellinum. Sömu lið áttust við í fyrsta leik fyrir ári síðan, þá unnu Framarar 2:0 og þeir endurtóku leikinn í ár. Lokatölur í kvöld urðu 2:0 en bæði mörk Framara voru afar sérstök og hefðu Eyjamenn átt að gera betur, sérstaklega í seinna markinu. Það var hins vegar leikur Eyjamanna sem olli hvað mestum vonbrigðum, leikmenn virtust með lítið sjálfstraust til að spila boltanum og einfaldar sendingar klikkuðu. Það eru því næg verkefni sem bíða Heimis Hallgrímssonar, þjálfara ÍBV og leikmanna liðsins.