Rúmlega tuttugu tillögur
Bæjarráð Vestmannaeyja hefur unnið að því hörðum höndum síðustu vikur og mánuði ásamt Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands að finna leiðir til þess að bæta upp þetta mikla tap bæjarfélagsins sem mun hljótast af skerðingunni. Niðurstaða þeirrar vinnu eru tuttugu og ein tillaga sem bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar leggur á borð til ríkisstjórnar Íslands. Fjórtán af þessum tillögum eru sértækar tillögur einungis ætlaðar fyrir Vestmannaeyjabæ en hinar sjö eru almennar tillögur sem einnig eru ætlaðar fyrir önnur sveitarfélög í sömu stöðu og var unnið náið með þeim sveitarfélögum að gerð þeirra.
Jafngildir hátt í 200 störfum
Blaðamannafundurinn fór fram í togaranum Vestmannaey VE 444, einu af þeim fjölmörgu nýju skipum sem bæst hafa í flota Eyjamanna á síðustu mánuðum. Skipið skapar um sautján sjómönnum í Eyjum atvinnu og kom fram á fundinum að kvótaskerðingin jafngilti því að tvö skip að svipaðri stærð færu frá Eyjum með sínar aflaheimildir. Það gera um 34 sjómannsstörf auk þeirra fjölmörgu afleiddu starfa sem verða til í landi. Ef litið er á þorskskerðinguna frá þessari hlið er ekki ólíklegt að þetta sé tap uppá um 200 störf, sem er gríðarlegt högg fyrir jafn lítið samfélag og Vestmannaeyjar eru.
Þetta er verkefni en ekki vandamál
Elliði Vignisson bæjarstjóri leiddi fundinn og kom fram í máli hans að þetta væri ekki tæmandi listi sem verið væri að leggja fram, heldur einungis hugmyndir og tillögur að aðgerðum. Einnig væru þetta aðeins tillögur er snéru að þætti ríkisins í mótvægisaðgerðunum. ,,Við höfum verið að þreifa fyrir okkur með þessar hugmyndir og allir þeir aðilar sem við höfum rætt við hafa tekið vel í þetta. Ég á ekki von á öðru en að ríkisstjórnin taki mjög vel í þessar tillögur, annað kæmi mér mjög á óvart. Við erum búin að leggja mikla vinnu í þetta og það ber að þakka Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands fyrir þeirra vinnu en án þeirra hefðum við aldrei náð að vinna þetta svona hratt og örugglega.” Elliði sagði jafnframt mikilvægt að Vestmannaeyjabær hefði frumkvæðið í þessum aðgerðum og myndi stýra þeim. ,,Þessar hugmyndir eru að okkar eigin frumkvæði og það skiptir mjög miklu máli. Það þýðir ekkert fyrir okkur að sitja bara og bíða eftir að ríkið rétti okkur eitthvað uppí hendurnar, þá gerist ekki neitt. Ef vel verður staðið að mótvægisaðgerðunum þá getur þetta eflt byggð í Vestmannaeyjum til lengri tíma litið. Við lítum á þetta sem verkefni en ekki vandamál,” sagði Elliði
Hvað gerir ríkisstjórnin?
Spennandi verður að sjá hvernig ríkisstjórnin tekur í þessar tillögur bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Vestmannaeyjar eeru kvótaríkasta sveitarfélag landsins ef litið er til þorskígilda og verða því fyrir mesta tapinu af öllum sveitarfélögum landsins með þessari skerðingu. Ríkisstjórn og stjórnmálamenn hafa legið undir miklu ámæli frá íbúum og stjórnendum Vestmannaeyjabæjar á síðustu árum vegna bágra samgöngumála og nú þegar ljóst er að til viðbótar munu ellefu milljarðar hverfa út úr bæjarfélaginu á næstu þremur árum hlýtur röðin að vera komin að okkur.
Tillögurnar sem ná einungis yfir Vestmannaeyjar:
1. Efling stoðkerfis sjávarútvegs
– Efling Hafrannsóknarstofnunar
– Efling á fyrirtækinu MATÍS ohf. og að tvær stöður verði tafarlaust auglýstar í bæjarfélaginu
– Efling Fiskistofu með a.m.k. tveimur nýjum störfum
– Stofnun Sæmundar Fróða verði flutt til Vestmannaeyja
2. Efling þorskrannsókna
– Ríkið tryggi fjármagn til tækjakaupa svo hægt verði að koma upp miðstöð þorskrannsókna í Vestmannaeyjum
3. Efling rannsókna- og fræðaseturs
– M.a. með ráðningu sérfræðinga við framkvæmda- og verkefnastjórnun
4. Viska símenntunarstöð verði styrkt og bætt
5. Efling á atvinnuráðgjöf og nýsköpun
– Eigi síðar en í september á þessu ári verði auglýst tvö störf á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í Vestmannaeyjum
6. FABLAB-setur
– Komið verði á fót hönnunar- og þróunarsetri fyrir stafræna framleiðslutækni í Vestmannaeyjum eða FABLAB setri (FABrication LABoratory)
7. Uppbygging hafnarmannvirkja
– Siglingastofnun ljúki undirbúningi að stórskipahöfn í Vestmannaeyjum
– Endurupptökumannvirki Skipalyftunnar
8. Ferðaþjónustusetur, menningartengd ferðaþjónusta
– Komið verði á fót Ferðaþjónustusetri sem veita á alla stoðþjónustu við ferðaþjónustu í Eyjum, aðstoða við markaðssetningu, kortleggja vaxtartækifæri, annast þjálfun, námskeið ofl.
9. Efling Framhaldsskólans
– Stofnaður verði þróunarsjóður fyrir skólann sem markaðssetur og kemur á fót nýjum námsleiðum
10. Viðhald fasteigna ríkisins í Vestmannaeyjum
– Endurbætur á 3.hæð Heilbrigðisstofnunar tafarlaust kláraðar
– Ráðist í framkvæmdir á 1. hæð HÍV
– Öðru viðhaldi flýtt sem kostur er
11. Sérhæfing Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja
– Skipaður starfshópur til að kanna vaxtarmöguleika stofnunarinnar
12. Efling sýslumannsembættisins í Vestmannaeyjum og störfum þar verði fjölgað
13. Verðbætur á hlut ríkisins í menningarhúsi og náttúrugripa- og fiskasafni
– Vöxtum og verðbótum verði bætt ofaná það fjármagn sem ríkið var búið að taka frá til byggingar á menningarhúsi í Vestmannaeyjum og uppbygginar náttúrugripa- og fiskasafni
14. Stórstígar samgöngubætur
– Gerð Bakkafjöruhafnar verði flýtt sem kostur er og verði tilbúin til notkunar í síðasta lagi vorið 2009
– Herjólfs fjölgað
– Flug á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja verði eflt og þriðju ferðinni bætt við yfir sumartímann
Hinar sjö almennu tillögurnar:
15. Aðgerðir til aðstoðar einstökum útgerðum
– M.a. endurfjármögnun eða skuldbreyting lána
16. Aukið framlag ríkisins til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
17. Afnám byggðakvóta
18. Afnám veiði- og auðlindagjalds
19. Tekjuskipting ríkis- og sveitarfélaga verði endurskoðuð með það að markmiði að styrkja rekstrargrundvöll sveitarfélaga landsins
20. Ríkið bæti upp það tap sem hafnarsjóðir sveitarfélaga verða fyrir vegna þorskskerðingarinnar
21. Ríkissjóður leggi hluta söluhagnaðar af eignum ríkisins í uppbyggingu á atvinnustarfsemi til þeirra sveitarfélaga sem verða fyrir skerðingu á þorskkvóta
Hefurðu skoðun á málefninu? Tjáðu þig á www.eyjar.net/spjall
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst