Frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun

Á spjallborði www.eyjar.net hafa komið upp nokkrar áhugaverðar hugmyndir í nýsköpun tengdum Vestmannaeyjum. Eitt er að fá góða hugmynd og annað er að hrinda henni í framkvæmd og finna fjármagn til þess að koma hlutunum af stað.

www.eyjar.net sendu nokkrar spurningar á Hrafn Sævaldsson ráðgjafa hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands og spurðum Hrafn út í Vaxtarsamning Suðurlands og Vestmannaeyja.

Svör Hrafns birtast hér fyrir neðan:

Hvert er markmið Vaxtarsamnings Suðurlands og Vestmannaeyja?
-Markmið Vaxtarsamnings Suðurlands og Vestmannaeyja (VSSV) eru eftirfarandi:
– Að efla Suðurland sem eftirsóttan valkost til búsetu.
– Að auka samkeppnishæfni svæðisins og efla hagvöxt.
– Að þróa og styrkja vaxtargreinar svæðisins og efla svæðisbundna sérþekkingu.
– Að fjölga samkeppnishæfum fyrirtækjum og störfum og efla framboð á vörum og þjónustu.
– Að nýta möguleika sem skapast með aðild að alþjóðlegum verkefnum.
– Að laða að alþjóðlega fjárfestingu og þekkingu.

Eru mörg verkefni sem hafa fengið styrk og eru staðsett í Vestmannaeyjum?
– Á þessu fyrsta starfsári samningsins hefur verið úthlutað 38,7 mkr. fyrir árið 2007 og 4,0 mkr. fyrir árið 2008. Samtals 42,7 mkr. 16 Verkefni hafa verið styrkt, 4 verkefnum hefur verið hafnað og fjöldi verkefna er í vinnslu á öllu Suðurlandi.
– Samtals hafa verið samþykkt framlög til 5 verkefna að upphæð 11,4 mkr til Vestmannaeyja á árinu 2007. Fjöldi verkefna er í umsóknarferli eða er á teikniborðinu.  Þau verkefni sem fengið hafa stuðning frá samningnum eru:

    1.Uppbygging söguseturs um Tyrkjaránið 1627, Tyrkjaránssetur. Verkefnið er flokkað innan Menningar- og ferðaþjónustuklasa.  VSSV styrkir verkefnið um  750.000. kr..
    2. Efling Rannsókna- og háskólastarfs í Eyjum. Verkefnið er flokkað innan Mennta- og rannsóknaklasa.  VSSV styrkir verkefnið um 3,0 mkr.
    3. Verðmætaaukning sjávarfangs, humarklær, vöruþróun
Verkefnið er flokkað innan Sjávarútvegs- og matvælaklasa. VSSV styrkir verkefnið um 3,75 mkr.
    4. Köfunarskóli í Vestmannaeyjum. Verkefnið er flokkað innan Menningar- og ferðaþjónustuklasa.  VSSV styrkir verkefnið um  2,5 mkr.
    5. Aukin arðsemi humarveiða: Verkefnið er flokkað innan Sjávarútvegs- og matvælaklasa. VSSV samþykkti stuðning við verkefnið á 1. ári, samtals 1,4 mkr, auk þess sem ráðið lýsti yfir áhuga á frekari stuðningi við verkefnið í framhaldinu á verkefninu.

Hvernig er umsóknarferlinu háttað?
-Atvinnuþróunarfélag Suðurlands er framkvæmdaraðili samningsins og hefur félagið skrifstofu í Hvíta húsinu svokallaða að Strandvegi 50 í Vestmannaeyjum. Ef fólk telur sig hafa eitthvað áhugavert verkefni fram að færa, mælum við með því að það kynni sér starfsemi klasa og vaxtarsamninga á heimasíðu Vaxtarsamnings Suðurlands og Vestmannaeyja, www.vssv.is., mjög góðar upplýsingar er þar að finna um allt sem við kemur samningnum og framkvæmd hans.  Þar er að finna m.a. fundargerðir framkvæmdaráðs, en ráðið tekur afstöðu til innsendra umsókna. Til að átta sig betur á umsóknarferlinu, er ágætt að lesa umsagnir um fyrri umsóknir.  Að sjálfsögðu getur fólk alltaf haft samband og komið við á skrifstofu félagsins, hvort heldur í Vestmannaeyjum eða á Selfossi.  Starfsmenn félagsins veita áhugasömum aðilum handleiðslu í gegnum ferlið, fólki að kostnaðarlausu. 

Á www.eyjar.net/spjall eru nokkrar áhugaverðar atvinnuhugmyndir, telurðu að það sé möguleiki fyrir þær að sækja um styrk?
– Við hvetjum þá aðila sem telja sig hafa eitthvað fram að færa að koma sér í samband við okkur.  Oft á tíðum er um góðar hugmyndir að ræða, en missa flugið þegar það á að koma hugmyndunum í framkvæmd.  Því hefur handleiðsla okkar í upphafi og í framhaldinu  verið mörgum mikilvæg aðstoð.  Hugtakið “miði er möguleiki” á vel við í umræðunni um þessi mál, ef fólk hefur verið með einhverja hugmynd í maganum í langan tíma hvetjum við það til að gera eitthvað í málinu, fyrsti staðurinn til að ræða málin getur verið hjá  okkur.

Hvaða kröfur eru gerðar til umsækjenda
– Skilyrði fyrir fjárstuðningi VSSV er að viðkomandi verkefni tengist uppbyggingu klasa, svo sem stuðningi við stofnun tengslanets, fræðslu og þjálfun, rannsókna- og greiningarvinnu, ráðgjöf eða sameiginleg þróunar- og samstarfsverkefni sem metin eru í hverju tilfelli. Ekki er heimilt að veita styrki til fjárfestinga í fyrirtækjum eða reksturs fyrirtækja eða opinberra stofnana, auk þess sem stofnkostnaður er ekki styrkhæfur.

Hversu oft er styrkjum útdeilt á ári og hversu mikið
-Tekið er á móti umsóknum til VSSV allt árið.  Framkvæmdaráð samningsins tekur síðan afstöðu til umsóknanna.  Ráðið fundar 10 – 12 sinnum á ári og oftar ef þurfa þykir, allt eftir fjölda umsókna sem liggja fyrir.
– Atvinnuþróunarfélag Suðurlands veitir síðan smástyrki, einskonar hvatningastyrki, einu sinni til tvisvar á ári. Undanfarin ár hefur verið úthlutað einu sinni á ári að vori til.  Í ár verður hins vegar úthlutað styrkjum tvisvar sinnu, fyrra skiptið var s.l. vor og síðan er umsóknarfrestur að renna út n.k. föstudag, 28. september vegna  hauststyrkja félagsins.  Úthlutað verður 5 milljónum til áhugaverðra verkefna að þessu sinni. Styrkirnir hafa verið á bilinu 100 – 350 þúsund króna.  Umsóknirnar eru metnar út frá ýmsum fyrirframskilgreindum þáttum.  Styrkirnir hafa verið auglýstir vandlega í fjölmiðlum á Suðurlandi í mánuð, en frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu félagsins www.sudur.is Heildarstyrksupphæð  sem Atvinnuþróunarfélagið mun veita á þessu ári verður því um 10 mkr. 

Hjálpið þið fólki við að útfæra atvinnuhugmyndir
– Já, eins og bent hefur verið á hér að ofan veitum við áhugasömum aðilum endurgjaldslausa aðstoð við framgang hugmynda sinna.  Við bendum á heimasíðu Atvinnuþróunarfélag Suðurlands www.sudur.is og heimasíða VSSV www.vssv.is . 

www.eyjar.net þakkar Hrafni kærlega fyrir svörin og hvetur eyjamenn með hugmyndir að hafa samband við Hrafn og starfsfólk Atvinnuþróunarfélags Suðurlands.

Nýjustu fréttir

Veit Inga hvað hún syngur?
Norðurinngangur við sjúkrahúsið opinn á ný
Viðhorf til bæjarstjóra í brennidepli í nýrri könnun
Vinnustofur í stað líkamsræktar?
Glacier Guys með nýtt föstudagslag
„Úttroðinn af loðnu”
Fréttapýramídar afhentir fyrir nýliðið ár
Karlar hvattir til að sýna handverk

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.