Afturelding vann stórsigur, 42:29, á ÍBV þegar nýliðar N1-deildar karla mættust að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld. Mosfellingar voru með örugga forystu frá upphafi til enda og einungis spurning um hversu stór sigur þeirra yrði. Staðan í hálfleik var 19:11, Aftureldingu í vil. Þetta var annar sigur Aftureldingar í deildinni en ÍBV liðið situr sem fyrr á botninum án stiga að loknum fjórum leikjum.Hilmar Stefánsson var markahæstur hjá Aftureldingu með 10 mörk, þar af fjögur úr vítakasti. Daníel Jónsson skoraði 8 mörk og Hrafn Ingvarsson sex. Hjá ÍBV var Janis Grisanovs markahæstur með 11 mörk, þar af þrjú úr vítakasti og næstur kom Zilvinas Grieze með 9 mörk. Hann var útilokaður frá leiknum tveimur mínútum fyrir leikslok þegar dómararnir, Anton Pálsson og Valgeir Ómarsson, sýndu honum krossinn fyrir gróft brot að þeirra mati. Áður hafði Grétar Þór Eyþórsson fengið rautt spjald fyrir leikbrot svo og Nikolav Kulikov.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst