Auglýsing Ríkiskaups í Mogganum á sunnudaginn hefur vakið mikla athygli hér í Eyjum. Sumir vilja meina að það hafi alltaf legið fyrir að rekstraraðilinn ætti skipið. Því héldu þeir félagar, Egill Arngríms og Jenni fram í spjallinu á dekkjaverkstæðinu hjá Magga Braga í gær. Þar var einnig Stebbi Jónasar sem kom alveg af fjöllum eins og ég. Gaman að heyra í fólki, hvort það hafi vitað þetta eða ekki. Þetta hefur alla vega farið illilega fram hjá mér…og reyndar fleirum sem ég hef rætt við.En ef þetta hefur alltaf legið fyrir hvernig stendur þá á því að bæjaryfirvöld í Eyjum eru ekki búinn að mótmæla þessu? Það er nógu slæmt að einkaaðili reki þjóðveginn okkar en það er nýmæli á Íslandi að einkaaðili EIGI þjóðveginn.
Svo er það skipið. Í auglýsingunni stendur að það eigi að lágmarki að taka 45 bíla og 250 farþega. Er reiknað með plássi fyrir gámanna eða eru þeir metnir sem bílgildi? Þ.e. er einn gámur sama og þrír – fjóri bílar? Þetta er lágmarksstærðin, sú sama og útreikningar Siglingastofnunar hafa miðast við. Það var alltaf sagt þegar menn voru að mótmæla stærðinni á skipinu. „Verið róleg, þetta er líkanið en svo verður gerð þarfagreining og skipið verður eins stórt og Eyjamenn þurfa.” Annað sem hefur greinilega farið fram hjá mér, hvenær var þessi þarfagreining gerð? Ef ekki er búið að gera hana, væri ekki rétt að klára það áður en útboðsmál fara í gang?
Og hvað getur skipið hugsanlega verið stórt miðað við höfnina sem á að byggja?
Ég tel þetta nýjasta útspil ríkisins köld vatnsgusa framan í Eyjamenn. Það skiptir greinilega engu máli hver situr í stól samgönguráðherra. Þetta eru sömu hrokavinnubrögðin og við kynntumst þegar Sturla var ráðherra. „Ykkur kemur þetta ekkert við,” sjónarmiðið.
Hvað segir það okkur? Ráðherrann stjórnar ekkert málum, það eru starfsmenn Vegagerðarinnar.
Sigursveinn bloggar á slóðinni: svenko.blog.is
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst