Á miðvikudaginn var haldinn aukafundur í bæjarráði Vestmannaeyjar til að setja fram og samþykkja minnisblað um kröfur Vestmannaeyjarbæjar vegna Bakkafjöru og Bakkaferju. Tillögur bæjarráðs eru metnaðarfullar og slær bæjarráð hvergi af í kröfunum og voru tillögur bæjarráðs samþykktar samhljóða.
www.eyjar.net sendu nokkrar spurningar um málið á Pál Scheving oddvita V-lista í bæjarstjórn Vestmannaeyja.
Í auglýsingu Ríkiskaupa um lokað útboð á rekstri ferjusiglinga milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru er gert ráð fyrir 15 ára samningstíma en bæjarráð Vestmannaeyja mótmælir þeim langa tíma. Hver eru mótrök ykkar fyrir þeim samningstíma sem auglýstur er í útboðslýsingu Ríkiskaupa?
Semja um hvað til 15 ára. Hver sér 15 ár fram í tímann. Fyrir 15 árum voru íbúar í Vestmannaeyjum 4.800, þá sigldi Herjólfur eina ferð á dag, reyndar tvær á föstudögum og brottför á sunnudögum kl. 14.00. Þá voru strandflutningar en við líði. Ég er hræddur um að þessi áætlun dyggði illa í dag og rekstraraðilinn farin að hagnast verulega á sinni samningsstöðu ef samið hefði verið fyrir 15 árum. Það veit enginn hverju þessi hugmynd um ferjulægi í Bakkafjöru á eftir að skila. Það er nauðsynlegt að afla reynslu af siglingu í Bakkafjöru áður en samið er til lengri tíma. Vesrmannaeyingar hafa slæma reynslu af úrbótum á styttri samningum þó reynsla og þekking hafi legið fyrir. Vítin eru til þess að varast þau.
Auglýsingin segir einnig að ferjan verði að lágmarki 250 farþegar og 45 bílar en kröfur bæjarráðs eru 350 farþegar og 55 bílar og 6 ferðir yfir vetrartímann og 8 ferðir yfir sumartímann. Miðað við kröfur bæjarráðs er flutningsgeta nýs skips milli 2100 – 2800 farþegar á dag og 330 – 440 bílar, eru þetta raunhæfar kröfur bæjarráðs?
Á einhverjum tímapunktum ársins er og verður þörf fyrir þessa flutningsgetu. Við hvað á að miða. Hvert ætlum við með Vestmannaeyjar. Ætlum við að eflast og stækka. Ætlum við að byggja upp alvöru ferðaiðnað. Nú er ágætt að hver spyrji sjálfan sig. Hugur bæjarráðs er ljós.
Bæjarráð fer fram á umtalsverða lækkun fargjalda á farþega og ökutæki, hver mun bera þann kostnað til að lækka fargjöldin frá því sem þau eru í dag?
Eyjamenn hafa lengi bent á það að Herjólfur sé þjóðvegur. Það er ekki reiknað sérstakt gjald þegar ferðast er um þjóðveg á Íslandi. Af hverju á að leggja meiri kostnað á Eyjamenn en sem nemur því sem aðrir hefðu þurft að greiða fyrir sömu vegalengd. Þetta snýst um jafnræði. Ríkið heldur uppi samgöngum á þjóðvegum landsins.
Kröfur bæjarráðs eru að 15-20 kojur verði um borð í nýju skipi á þessari 30 mínútna siglingaleið, er verið með því að tryggja að sú þjónusta sé fyrir hendi ef ferjan þurfi að sigla til Þorlákshafnar ef Bakkafjara verður ófær vegna veðurs?
Í mínum huga kemur ekki til greina að hugsa um það að ferjan sigli til Þorlákshafnar. Samþykkt bæjarstjórnar fyrir gjörningnum gengur út á það að frátafir verði ekki meiri en við búum við með siglingum til Þorlákshafnar. Upp á það skrifa ég og mun leggjast gegn öðrum hugmyndum. Hins vegar verða að vera til staðar kojur í skipinu þó siglingin sé stutt. Skipið flytur alla flóru samfélagsins á erfiðri siglingaleið, hvítvoðunga, gamalmenni, sjúklinga og einfaldlega fólk sem ekki getur hugsað sér að vera upprétt þegar fast land er ekki undir fótum
Bæjarráð mótmælir einnig því að eignarhald nýrrar ferju verði í einkaeigu, eru einkaaðilar verr til þess fallnir að reka og eiga ferjuna heldur en opinberir aðilar?
Einkaaðilar standa sig oft betur í rekstri en hið opinbera. Spurningin er hins vegar sú hvort samgöngur um þjóðvegi séu ekki hluti af velferðarkerfinu og því ekki gerð arðsemiskrafa af rekstri þjóðvega. Arðsemiskarfan hefur tilhneigingu til þessa að einbeita sér að pyngjunni frekar en þjónustunni. Við höfum slæma reynslu af því.
Í dag er ekki byrjað að hanna ferju í verkefnið og litlar framkvæmdir hafnar við Bakkafjöru, er raunhæft að byrjað verði að sigla á milli Vestmannaeyja og Bakka árið 2010?
Því miður verð ég að játa það að ég tel afar ólíklegt að silgt verði milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru árið 2010.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst