Þorlákur Árnason yfirþjálfari hjá unglingaflokkum Stjörnunnar hefur skrifað barnabók sem kemur út á næstu dögum. Þorlákur hefur þrátt fyrir ungan aldur þjálfað bæði Meistaraflokka Vals og Fylkis. Hann hefur undanfarin ár verið yfirþjálfari hjá Stjörnunni. Okkur vék forvitni að vita hvað varð til þess að hann skrifaði þessa bók sem heitir Ævintýri Lilla, fyrsti vinurinn. Hvað varð til þess að þú skrifaði þessa bók?
Það er erfitt að segja hvað gerði útslagið en ég kem af miklu ,bókaheimili” og hef alltaf lesið mikið af bókum sjálfur.
Ákveðin feimni hefur hins vegar gert það að verkum að ég hef ekki látið af þessu verða fyrr en nú. Sennilega byrjaði fiktið þegar ég sagði strákunum mínum sögur fyrir svefninn. Síðan byrjaði ég að semja söguna að gamni mínu og góð vinkona mín las söguna fyrir son sinn á kvöldin. Nú drengurinn varð aðdáandi númer eitt og bað alltaf um fleiri sögur og á endanum varð úr þessi bók.
Strákurinn heitir Tómas Elí og er í 7.flokki Stjörnunnar og mamma hans er formaður Barna- og unglingaráðs Stjörnunnar. Þetta kallast sennilega að sameina vinnu og áhugamál.
Um hvað er bókin?
Bókin fjallar um strák sem á í miklum erfiðleikum við að tengja við jafnaldra sína en á góð samskipti við fullorðið fólk. Mamma hans og afi eru bestu vinir hans og því er talsmáti hans frekar háfleygur. Hann greinist síðan með ofvirkni og athyglisbrest í skólanum og þá fyrst eignast hann vin í sérkennslu skólans.
Fyrir hvaða aldurshóp er hún?
Bókin er aðallega fyrir aldurshópinn 5-9 ára, hún er hins vegar holl lesning fyrir fullorðna.
Varstu lengi með þessa hugmynd í hausnum áður en þú fórst í þetta verkefni?
Já, ég er eiginlega með allt of mikið af hugmyndum í hausnum og fullt af dagdraumum. Ég hef hins vegar gert allt of lítið af því að framkvæma þessa hluti enda hef ég aldrei litið á sjálfan mig sem rithöfund. Það hafa ansi margir rekið upp stór augu þegar ég hef sagt þeim frá bókinni. Feimnin hefur hægt á mér enda þarf maður að gefa mikið af sjálfum sér í svona verkefni, en ég er mjög sáttur við að hafa þorað þessu…
Varstu lengi að skrifa hana?
Hugmyndin og skriftirnar tóku ekki langan tíma en það er ótrúleg vinna sem hefur farið í að yfirfara bókina og fullvinna. Ég fékk hins vegar hjálp frá góðu fólki. Rúnar Vignisson rithöfundur og þýðandi hjálpaði mér mest enda algjör snillingur en svo voru aðrir sem veittu mér andlegan stuðning. Svo hefur Gísli Foster í Eyjum hjálpað með uppsetningu og yfirferð, það má nú segja að þetta sé barnið okkar beggja.
Nú er bókin myndskreyt, hvar teiknaði myndirnar?
Vestmannaeyingurinn Gunnar Júlíusson teiknaði myndirnar. Hann er frábær teiknari og náði svo sannarlega
að auka gæði bókarinnar.
Ertu með fleiri bækur á dagskrá?
Já, ég er með framhald af sögunni í vinnslu en sú bók gerist einmitt að mestu leyti í Vestmannaeyjum. Það er svo ótrúlega mikið hægt að bralla í Vestmannaeyjum,” sagði Þorlákur Árnason í samtali við Gras.is
Þeir sem hafa áhuga að kaupa sér eintak af bókinni geta sent vefpóst á lakim@simnet.is og pantað sér eintak af höfundi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst