Félag ungs fólks í sjávarútvegi stofnað
23. nóvember, 2007
Stofnað hefur verið félag ungs fólks í sjávarútvegi. Markmið félagsins er að vinna að almennri fræðslu í sjávarútvegsmálum og stuðla að opinni umræðu um málefni greinarinnar. Það er von fyrstu stjórnar félagsins að rödd þess unga fólks sem starfar í sjávarútvegi, sinnir þjónustu við greinina eða hefur áhuga á málefnum hennar muni nú finna sér stað innan félagsins. Að mati stjórnar hefur umræða undanfarið verið einsleit og neikvæð í garð sjávarútvegs og standa vonir til þess að opnari umræða og bætt fræðsla muni færa umræðuna til betri vegar.

Í frétt frá félaginu segir: ,,Miklu máli skiptir að vel takist til í sjávarútvegi á Íslandi sem er nú sem fyrr í fremstu röð á heimsvísu. Mikilvægt er að mati stjórnar félagsins að haldið verði áfram á þeirri braut svo þeir sem í greininni starfa geti nýtt sóknarfæri sem gefast hverju sinni líkt og í öðrum atvinnugreinum. Traust og öruggt kerfi við stjórn fiskveiða skiptir þar miklu máli og hvetur stjórn félagsins til þess að undirstöður núverandi kerfis verði styrktar enn frekar og sérstökum sköttum á sjávarútvegsfyrirtæki verði aflétt.”

 Friðbjörn Orri Ketilsson, formaður félagsins segir: „Það var orðið tímabært að tengja saman það unga fólk sem starfar í greininni, tengist henni eða starfar í tengslum við hana. Einnig voru margir sem sinna tengdum störfum í landi og hafa mikinn áhuga á sjávarútvegsmálum sem fannst vanta vettvang fyrir sín sjónarmið. Tilkoma félagsins er því kærkomin og góð viðbót í sjávarútvegsmálin.”

Á næstunni er margs að vænta frá nýstofnuðu félagi sem nánar verður tilkynnt þegar þar að kemur. Hægt er að fylgjast með starfsemi félagsins á vef þess, http://www.fufs.is/. Fyrstu stjórn félagsins skipa Friðbjörn Orri Ketilsson – formaður, Einar Sigurðsson, Fannar Hjálmarsson, Gísli Freyr Valdórsson, Geir Ágústsson, Héðinn Karl Magnússon og Magnús Sigurðsson. —

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst