Nú fyrr í kvöld fór fram fyrri umræða um fjárhagsáætlun samstæðu Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2008. Óhætt er að fullyrða að aldrei í sögu sveitarfélagsins hefur slík áætlun verið lögð fram. Það er alveg ljóst að slagkraftur samfélagsins til framtíðar er mikill. Það er líka ljóst að vandi fylgir vegsemd hverri.
Niðurstöður fjárhagsáætlunar samstæðu sýna rekstrarhagnað að upphæð 472.368.000 í stað 203.199.000 kr. halla árið 2007 en jákvætt veltufé frá rekstri er áætlað 761.244.000 í stað 22.618.000 kr. á yfirstandandi ári. Gert er ráð fyrir að afborganir lána nemi 223.000.000 og engin ný lán eru nú áætluð í stað 331.184.000 kr. í seinustu áætlun. Hér að öllum líkum um sögulega sérstæðan viðburð að ræða því mér er til efs að frá stofnun sveitarfélagsins hafi verið lögð fram fjárhagsáætlun þar sem ekki er gert ráð fyrir lántöku.
Það er því ljóst að staða Vestmannaeyjabæjar er rekstrarlega sterkari en áður hefur verið. Það þarf hinsvegar sterk bein til að halda aftur af þenslu þegar þannig árar og mikilvægt að bæjarfulltrúar séu þess minnugir að fjármagn það sem snúið hefur rekstri úr tapi í hagnað hefur orðið til með þrautseigju og elju íbúa í gegnum áratugi og jafnvel ár hundruð. Með það í huga ber okkur að haga rekstri og framkvæmdum í sveitarfélaginu þannig að eignarsala sú sem við höfum ráðist í snúi rekstri við til langstíma og gullgæsinni verði ekki slátrað. Það er líka ástæða til að minna á að skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins eru enn verulega íþyngjandi og valda ugg. Sem dæmi má nefna að heildar söluhagnaður af Hitaveitu Suðurnesja og af fasteignum þeim sem seldar voru til Fasteignar hf. duga ekki fyrir skuldum og skuldbindingum.
Áfram þarf því að gæta aðhalds í rekstri og umgangast fjármuni með það í huga að við erum að sýsla með eignir íbúa Vestmannaeyjabæjar. Ákvarðanir verður að taka með heildar hagsmuni íbúa að leiðarljósi en ekki skammtíma kröfur háværra þrýstihópa. Seinustu árin hafa bæjarstjórar og bæjarfulltrúar réttilega barmað sér yfir erfiðum rekstri en öllum er ljóst að nú slær við annan tón og er það tónn bjartsýni á meðan minnt er á að vandi fylgir vegsemd hverri. Hafi fyrir ári verið ástæða til að vera með annan fótinn á þenslu bremsunni verðum við nú að setja báða fæturna á þann petala. Í seinustu áætlun kynntum við nýyrðið “mannúðleg rekstrargildi” og stefna okkar er að vinna áfram út frá slíkum forsendum, enda er stjórnun sveitarfélags líkari stjórnun fjölskyldu en fyrirtækis.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst