Mig langar að byrja á því að þakka Guðmundi Þ.B. fyrir skrif hans um samgöngumál okkar Eyjamanna, það er gríðarlega mikilvægt að sem flestir tjái sig og umræðan verði áfram opin, en snúist ekki um einhverja vafasama útreikninga hjá einhverjum meintum sérfræðingum.
Ástæðan fyrir þessari grein minni núna eru fyrst og fremst fullyrðingar Sigurðar Áss um að staðsetning Landeyjahafnar, væri sú besta með allri suðurströndinni. Ég hef marg oft sagt það og skrifað, að miðað við þekkingu mína og reynslu eftir tæplega 30 ára sjómennsku hér við Eyjar, þá sé einmitt staðsetning Landeyjahafnar sennilega eitt stærsta klúðrið í öllu ferlinu, og í raun og veru tel ég að það sé hreinlega ekki til verri staðsetning en einmitt þar sem höfnin er.
En hver er þessi munur á skoðunum mínum og Sigurðar Ás? Á kynningarfundinum um Landeyjahöfn á sínum tíma, kom alveg skírt fram hjá Gísla Viggóssyni að stærsta ástæðan fyrir staðsetningu Landeyjahafnar, væri sú staðreynd að í Vestmannaeyjum væri ríkjandi vindátt suðvestan átt. Ef þetta væri rétt hjá Gísla, þá væri þetta hárrétt staðsetning á höfninni, en flest allir Eyjamenn vita það, að svo er ekki. Ríkjandi bræluátt er austan átt, eins og við sjáum undanfarna daga, sem gerir það að verkum að staðsetning hafnarinnar er eitt allsherjar klúður.
Ég hef bent fólki á það að skoða það t.d. inni á belging.is hvar rokið kemur undan Eyjafjöllum, en um leið hvar lognið er aðeins vestar og norður úr Eyjum. Einnig er hægt að skoða þetta mjög vel í austan brælum inni á marinetraffic.com, en þá sést vel að nokkrum mílum vestar eru bátar á veiðum inni í fjöru í logni.
Að mínu mati hefði höfnin miklu frekar átt að vera á þeim slóðum og með innsiglinguna í beinni línu frá Vestmannaeyjum og þannig með fast land í beinni línu frá innsiglingunni, sem hefur einmitt skipt svo miklu máli varðandi höfnina í Vestmannaeyjum sem og höfnina í Þorlákshöfn sem er með stefnu á Stokkseyri. Ef hins vegar er tekin bein lína út úr innsiglingunni í Landeyjahöfn, þá er næsta fasta land sennilega einhver staðar í Bandaríkjunum. Þess vegna verður að verja innsiglinguna fyrir grunn brotsjó og úthafs öldu. Mér líst ágætlega á teikninguna sem Halldór B. Nellett er með inni á eyjamiðlunum, þó að sjálfsögðu megi útfæra þetta á margan hátt.
Aðeins um þessa grísku ferju sem Simmi á Víking hefur verið að sýna okkur myndir af inni á eyjamiðlunum. Þarna erum við að tala um gríðarlega mikla aukningu á flutningsgetu, bæði á bifreiðum og fólki, og ef skipið gengur að jafnaði 16,5 mílur, þá er það að fara aðeins hraðari en Herjólfur og miklu hraðari en hin nýja ferja á að ganga. Eini mínusinn sem ég sé í fljótu bragði er stefnið á ferjunni, sem mér finnst vera full flatt og breitt, en ég hefði þurft að sjá þetta skip sigla í slæmu veðri til þess að geta úttalað mig alveg um það, en að öðru leyti held ég að þarna sé komið fram tækifæri sem við ættum virkilega að skoða í alvöru.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst