Eyjamenn lesa æ oftar um að sameina frekar en sundra. Bæjarstjórinn endar marga sína pistla á þessum orðum. Aðalega í kringum samgöngu-umræðuna. En hvers vegna?
Er það vegna þess að stór hluti bæjarbúa er honum ekki sammála? Getur ekki verið að flestum þyki ákvarðanirnar ekki réttar á þessu sviði? Að fólk kvíði því að fá þessa ,,samgöngubót“ sem felst í nýrri ferju? Kvíði því að þurfa að sigla í fleiri mánuði uppí Þorlákshöfn í vetrarveðrum með rúmlega 30 kojur efst í skipinu?
Bæjarstjórinn fær menn ekki til að sameinast um eitthvað sem fólk hefur ekki trú á. En hvers vegna hefur fólk ekki trú á verkefninu?
Það er vegna þess að lítið hefur staðist af því sem gert hefur verið og ekki hefur verið hlustað á þá sem nota höfnina, þ.e skipstjórnarmenn.
Ekki einu sinni hefur staðist það sem sagt var á kynningu á nýrri ferju. Fyrst var borið á borð fyrir okkur að frátafir yrðu 5 dagar á ári. Svo var kynnt að frátafirnar yrðu 10 heilir dagar og 30 dagar sem hægt yrði að sigla hluta úr degi í Landeyjar. Svo skyndilega breyttust 10 dagarnir í 10%, því var lætt svona inn í von um að enginn tæki eftir því. Nú eru menn farnir að viðurkenna að þetta verði frátafir í nokkra mánuði á ári.
Er nema von að menn sameinist ekki – þegar þetta eru vinnubrögðin? Bæjarstjóra væri nær að hlusta á reynsluboltana í sínu nærumhverfi og leggjast á árar með þeim. Þeir tala allir um að vandamálið sé aðkoman að Landeyjahöfn. Straumurinn þar, sem minnkar sennilega ekki með að fá nýja ferju. Vissulega getur hún eitthvað meira – en á móti kemur versnar staðan þegar siglt er í Þorlákshöfn.
Nei, það hefur verið mælt* að 87% bæjarbúa sem bæjarstjóri vinnur fyrir, var sammála því að láta fyrst gera lagfæringar á Landeyjahöfn, svo að smíða ferju.
Er nema von að bæjarstjóri endi pistla sína á að sameina frekar en sundra?
Tryggvi Már Sæmundsson
*Úr skoðanakönnun MMR fyrir ET miðla sem gerð var í febrúar 2016. Hringt var í 874 Íslendinga 18 ára og eldri með skráð lögheimili í Vestmannaeyjum. Fjöldi svarenda 515 einstaklingar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst