Fyrir nokkrum árum var ég veislustjóri á árshátíð hér í bæ. Mér fannst og finnst sjúklega gaman að vera veislustjóri og hef fengið að gegna því hlutverki nokkrum sinnum.
Eins og ég get verið feimin og til baka (nú hlæja þeir sem þekkja mig best) þá á ég ekki í neinum vandræðum með að tala fyrir framan fullt af fólki, því fleiri því betra. Í fyrsta skipti sem ég var veislustjóri var það í brúðkaupi góðra vina og það gekk ekki betur en svo að þegar ég ,,opnaði” veisluna með brandara þá hló ekki ein einasta sála. Mér var pínu brugðið (lesist ég dó næstum úr skömm) þar sem þetta var eini brandarinn sem ég hafði skipulagt. En hei það hafði ekki meiri áhrif á mig en það að ég hef mjög oft verið veislustjóri síðan og bara með ágætum árangri þó ég segi sjálf frá.
Það er þó atvik á fyrrnefndri árshátíð sem situr í mér, mörgum árum seinna. Ég er nú ekki þekkt fyrir að vera neitt sérstaklega mikið að skvísa mig upp svona dags daglega og uppistaðan í mínum fataskáp eru leggings og þægilegir kjólar. Það breytir því þó ekki að mér finnst gaman að hafa mig til, mála mig og klæða mig upp á. Nákvæmlega það gerði ég fyrir þessa árshátíð. Ég pantaði mér nýjan kjól á netinu, fór í hárgreiðslu til uppáhalds hárgreiðslukonunnar minnar og svo splæsti ég líka í förðun hjá uppáhalds snyrtifræðingnum mínum. Þegar ég var svo komin í kjólinn með fína hárið og fallegu förðunina horfði ég á mig í speglinum og fannst ég bara líta skratti vel út. Full sjálfstraust og afar ánægð með mig skundaði ég á árshátíð.
Það sem gerðist þar er eitthvað sem mér hefði aldrei órað fyrir, það komu allavega þrjár konur upp að mér þetta kvöld og sögðu ,,Það er aldeilis að mín er fín, það á greinilega að veiða eitthvað í kvöld” og svo fylgdi á eftir ,,En höfum það alveg á hreinu að þú lætur minn mann í friði”. Ég er eiginlega ennþá kjaftstopp!!!!! Héldu þessar konur í alvörunni að ég hefði gert mig fína til þess að heilla karla og þá sérstaklega gifta karla. Hvarflaði ekki að þeim að ég hefði gert þetta allt fyrir mig, til þess að mér myndi líða vel og væri glöð með sjálfa mig, því trúið mér, til þess eins var þetta gert.
Jú vissulega er ég búin að vera einhleyp lengur en góðu hófi gegnir að margra mati en það skal vera alveg á hreinu að þegar ég skelli mér í betri gallann og geri mig fína þá er það gert fyrir mig……ekki til þess að veiða karlmenn. Það þarf ekkert að hafa mörg orð um það að um leið og þessi orð höfðu fallið þá hrundi sjálfstraustið og niðurrifið hófst. Hvað var ég eiginlega að þykjast vera eitthvað, hélt ég í alvöru að kjóll og förðun myndu fela það hvað ég er með mörg aukakíló? Kvöldið var ekki eins eftir þessar meinlegu athugasemdir og það skipti engu máli hve margir komu að máli við mig þetta kvöld og sögðu mér hvað ég liti vel út…..ég einfaldlega trúði því ekki.
Mig langaði nefnilega bara að fara og láta mér líða vel, ég vildi ekki neinar athugasemdir um það hvernig ég leit út, hvort sem það voru athugasemdir um það hvað ég leit vel út eða athugasemdir þess lútandi að ég væri þarna til að tæla karlmenn, helst gifta. Mig langaði bara að líða vel í eigin skinni, finnast ég fín og njóta kvöldsins. Ég elska að fá hrós, rétt eins og þorri mannkyns en ég þrífst ekki á því. Ég kýs svo milljón sinnum meira að fá hrós fyrir það sem ég er heldur en fyrir það hvernig ég lít út. Ég er nefnilega svo ,,vitlaus” að ég met fólk enn eftir persónuleika, ekki útliti.
Kalliði mig klikkaða en mikið ofsalega vona ég og trúi að þegar draumaprinsinn minn áttar sig á því að hann er minn þá elski hann mig vegna þess hvað ég er fyndin, vel gefin, skemmtileg, tilfinningarík og vegna þess hvað ég hlæ ógeðslega hátt. Ég vona að hann elski mig þrátt fyrir kvíðann minn, þunglyndið mitt, sérviskuna mína (pulsa með öllu nema remólaði, pínulítinn hráan, sinnepið undir og tómatsósu undir og ofan á) og þá staðreynd að ég er ekki með bílpróf. Ég trúi því að enn sé heimurinn fullur af fólki sem horfir fyrst og fremst á það hvað og hver maður er en ekki hvað málin manns eru eða hvort maður sé í kjörþyngd eða ekki.
Ég viðurkenni það hér með að þessi orð særðu mig og sitja enn í mér en með því að gera þetta opinbert þá ætla ég að hætta að láta þetta trufla mig. Þetta hafði nefnilega ekkert með mig að gera, fína kjólinn minn, fallega hárið mitt eða glæsilegu förðunina. Þetta hafði eitthvað að gera með þessar konur að mínu mati og við það ætla ég að standa. Ég vona að við séum ekki svo skini skroppinn og hégómleg að við teljum okkur þurfa að ganga upp að fólki og koma með meinlegar athugasemdir til þess að ýta undir okkar eigin egó. Ég segi það enn og aftur að öll höfum við eitthvað fram að færa, alveg sama hvað baðvigtin segir eða hvort fötin okkar séu frá Spakó eða úr Rauðakross-búðinni.
Verum bara næs……
Ykkar Lóa 🙂
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst