Árið 2018 var gerður samningur milli Vegagerðarinnar og Björgunar um viðhaldsdýpkun í og við Landeyjahöfn. Samningur þessi var til þriggja ára.
Í kjölfar undirskriftar kom fram gagnrýni á Vegagerðina þess efnis að fyrirtækið réði illa við verkefnið miðað við þann tækjabúnað og skipakost sem Björgun hefði yfir að ráða.
Þessu svöruðu forsvarsmenn Vegagerðarinnar á þá leið að í tilboði Björgunar séu dýpkunarskipin Dísa og Sóley boðin til verksins. Auk þess er gröfupramminn Reynir og efnisflutningaskipið Pétur Mikli boðnir, en þessi tæki hafa ekki dýpkað í Landeyjahöfn. Með þessum tækjabúnaði verður afkastageta Björgunar a.m.k. sambærileg og hins belgíska Jan De Nul. Að mati Vegagerðarinnar er verktakinn með nauðsynlegan tækjabúnað til að vinna verkið með viðunandi hætti og getu til að dýpka höfnina nægjanlega m.t.t. siglinga innan hæfilegs tímaramma.
Vegagerðin vill líka benda á að Landeyjahöfn hefur yfirleitt verið opin frá febrúar/apríl til nóvember/desember frá árinu 2011. Munurinn á milli þeirra sem hafa dýpkað höfnina er ekki mikill en veðráttan ræður öllu.
Verktakinn mun verða beittur dagsektum ef hann er ekki við vinnu þegar dýpi er ekki nægjanlegt í höfninni og veðurskilyrði eru til dýpkunar. Þetta á líka við ef verktaki getur ekki dýpkað vegna bilana, sagði í tilkynningu Vegagerðarinnar í nóvember 2018.
Síðan þá er væntanlega búið að gera nýjan samning við Björgun og fyrirtækið þá væntanlega boðið fram sama skipakost og áður – nema nú bara þremur árum eldri.
Það sem kom svo í kjölfar þess, var að fyrirtækið Björgun setti frétt inn á heimasíðu sína sem reyndar er ekki sjáanleg þar lengur, þar sem sagði að fyrirtækið stefni að því að endurnýja að hluta skipakost félagsins á næstu misserum.
Þar sagði enn fremur að annað hvort verði það gert með nýsmíði dæluskips eða fjárfestingu í notuðu skipi. Ljóst er þó ferlið mun taka töluverðan tíma, sagði m.a. í fréttinni.
Síðan eru liðin rúm þrjú ár og enn bólar ekkert á hinum nýja skipakosti Björgunar. Vissulega er það svo að vetur konungur hefur verið hagstæður undanfarin ár þegar kemur að sandburði í höfnina. En tíðin undanfarið hefur reynst tími sandflutninga og þá hefði farið betur að tíminn frá árinu 2018 til dagsins í dag hefði verið betur nýttur til endurnýjunar skipastóls, eða var þetta kannski sett fram til að slá ryki í augu fólks?
Til að svara spurningunni hér í fyrirsögninni, þá gerðist það árið 1969 að dæluskipið Dísa var smíðað og er blessuð Dísan því komin á sextugsaldurinn. Það var til að mynda sama ár og Richard Nixon tók við embætti Bandaríkjaforseta og Bítlarnir komu í síðasta sinn fram opinberlega á tónleikum á þaki Apple Records í London. Það er kominn tími síðan. Nú er bara spurningin hvenær Dísa kemst á eftirlaun?
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst